Kalt en fallegt vetrarveður

Það er útlit fyrir kalt en fallegt vetrarveður næstu daga. …
Það er útlit fyrir kalt en fallegt vetrarveður næstu daga. Nóg er af snjónum þessi dægrin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það verður víða bjart og fallegt vetrarveður og hægviðrasamt út vikuna. Hiti víða nálægt frostmarki að deginum en talsvert næturfrost inn til landsins, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Spá fyrir næsta sólarhring:

Norðaustan 3-10 m/s, en norðan 8-15 austast. Dálítil él NA-til, en annars víða léttskýjað. Hiti um og yfir frostmarki að deginum, en víða vægt frost inn til landsins. Talsvert næturfrost.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað. Norðan 8-13 m/s austast á landinu og lítils háttar él. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag og sunnudag:
Austan 3-8, en 8-13 með suðurströndinni. Bjart veður norðan- og vestan til á landinu, en dálítil él suðaustanlands. Frost 0 til 7 stig, mest í innsveitum fyrir norðan. Hlýnar lítið eitt á sunnudag.

Á mánudag:
Austlæg átt, rigning eða slydda sunnan- og austanlands, en annars þurrt. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost í innsveitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert