Lítur út eins og fljúgandi furðuhlutur

Blossinn sést hér ofarlega fyrir miðju.
Blossinn sést hér ofarlega fyrir miðju. Ljósmynd/Arnar Bergur Guðjónsson

„Þegar afstaðan milli þín, gervitungslins og sólarinnar verður þannig að gervitunglið verkar eins og spegill sem varpar miklu sólarljósi til jarðar skyndilega sést blossi á himni.“ Þannig útskýrir Sævar Helgi Bragason svokallaðan Iridium-blossa í samtali við mbl.is.

Fólk heldur stundum þegar það sér áðurnefndan blossa að um sé að ræða fljúgandi furðuhlut og Sævar hefur fengið símtöl vegna þess. Hann segir að hægt að spá með mikilli nákvæmni um hvar og hvenær blossinn birtist en þeir sjást á hverju kvöldi þó þeir séu misáberandi.

„Það er til að mynda hægt að sjá væntanlega blossa á vefsíðunni Heavens-above.com. Þar getur maður sagt hvar maður er staddur í heiminum og kallað fram alla blossa sem væntanlegir eru næstu daga,“ segir Sævar og bætir við að blossarnir geti varað allt frá augnabliki upp í 30 sekúndur.

Hann segir að annað kvöld ætti að sjást mjög skær blossi frá Reykjavík. „Blossinn verður skærari en Venus en hann ætti að sjást um klukkan 21:22.“

Sævar bendir einnig á að aðstæður til þess að virða fyrir sér stjörnurnar séu ákaflega góðar í þessari viku en spáð er köldu og heiðskíru út vikuna. „Við ætlum að nýta okkur það til hins ýtrasta. Ég mun ásamt Háskóla Íslands bjóða öllum sem áhuga hafa í stjörnuskoðun fyrir framan Háskólann á föstudagskvöld klukkan átta,“ segir Sævar.

Hann vill einnig benda fólki á að í kvöld og annað kvöld verður samstaða tungslings, Venusar og Mars mjög falleg en þau mynda þríhyrning á himninum, eins og lesa má nánar um hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert