Skattamál sérstaks saksóknara endurvakin

Húsnæði embættis héraðssaksóknara.
Húsnæði embættis héraðssaksóknara. Ófeigur Lýðsson

Fjögur skattamál sem embætti sérstaks saksóknara (sem síðar varð að embætti héraðssaksóknara) ákærði í árið 2013 en hafa verið í bið síðan eru nú komin á dagskrá héraðsdóms. Málin voru sett til hliðar meðan beðið var eftir niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um tvöfalda refsingu fyrir sama mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Enn hefur ekki verið dæmt í máli Jóns Ásgeirs en norskt mál sem svipar til máls Jóns Ásgeirs og miklar tafir leiddu til þess að héraðssaksóknari  óskaði eftir að málin yrðu tekin fyrir.

Samhliða þessu verður farið í að vinna niður þann bunka mála sem hefur safnast upp undanfarin ár og bíða átti með þangað til dómur í máli Jóns Ásgeirs væri fallinn. Í heild er um að ræða milli 60 og 70 mál, en þar á meðal er fjöldi mála sem tengjast Panama-skjölunum og skattrannsóknarstjóri vísaði til héraðssaksóknara. Í desember á síðasta ári var greint frá því að skattrannsóknarstjóri hafði sent 46 mál til saksóknara.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að ekki sé hægt …
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að ekki sé hægt bíða lengur með skattamálin þar sem miklar tafir hafi verið á að fá niðurstöðu frá Mannréttindadómstólnum. mbl.is/Styrmir Kári

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari segir í samtali við mbl.is að talsverðar tafir hafi verið á máli Jóns Ásgeirs og að svo hafi norski dómurinn komið í lok síðasta árs. „Við verðum að hugsa um að halda áfram,“ segir hann og bætir við að eldri málum hafi verið komið af stað og nýrri mál sett í fulla vinnslu. Segir hann að ekki sé hægt að bjóða upp á meiri tafir varðandi þessi mál.  „Við óskuðum eftir að þessi mál yrðu tekin fyrir aftur.“

Skiptar skoðanir eru þó um fordæmisgildi norska dómsins og sagði lögmaður Jóns Ásgeirs að munur væri á málsmeðferð skattamálsins þar og hér heima þar sem hún hefði verið á sama tíma fyrir dómsvaldi og stjórnvaldinu en ekki hér á landi.

Hann staðfestir að hluti þeirra 60-70 mála sem hafi safnast saman undanfarin misseri tengist Panama-skjölunum, en að embættið haldi ekki sérstaklega utan um fjölda mála sem tengist þeim skjölum.

Málin fjögur sem nú hafa verið endurvakin eru vegna meintra skattsvika frá um 10 milljónum upp í rúmlega 90 milljónir hvert. Í einu málinu var ákært fyrir brot á skatta- og bókhaldslögum og undanskot á skatti, trassaskaps við skil á virðisaukaskattskýrslum og fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald lögfræðistofu. Í tveimur öðrum málum að ekki hafi verið staðið skil á efnislega réttum skattaframtölum vegna hagnaðar á framvirkum gjaldmiðlasamningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert