Rannsaka hvaða efni valda lyktinni

United Silicon í Helguvík.
United Silicon í Helguvík. Ljósmynd/United Silicon

Umhverfisstofnun hefur áhyggjur af því að efni sem valda lyktinni sem íbúar í grennd við kísilverksmiðjuna í Helguvík hafa kvartað yfir hafi ekki verið mæld. Stofnunin segir að í bréfi hennar til United Silicon sem var sent 21. febrúar sé ítarlegur rökstuðningur fyrir því hvers vegna hún vilji að verksmiðjan geri tafarlausar úrbætur í mengunarmálum.

United Silicon sendi frá sér athugasemd í síðustu viku þar sem hún óskaði eftir rökstuðningi frá Umhverfisstofnun, sem hótaði því að verksmiðjunni yrði lokað ef ekki yrðist ráðist í úrbæturnar. Óskað var eftir því að stofnunin tilgreindi á hvaða gögnum hún byggi þá skoðun sína að mengun frá verksmiðjunni sé slíkt vandamál að ráðast þurfi í verkfræðilega úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar og jafnvel stöðva reksturinn tímabundið.

Efni sem ekki er verið að mæla

„Við erum að byggja á kvörtunum og ábendingum íbúa fyrst og fremst. Við erum ekki að byggja á mælingum vegna þess að við höfum áhyggjur af því að þetta séu efni sem er ekki verið að mæla,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Hún segir stofnunina hafa verið með það til skoðunar hvaða efni það geti verið en ekki er tímabært að slá því föstu. Þar er verið að skoða efni sem geta haft svipuð áhrif og íbúarnir eru að lýsa.

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

Sóttvarnalæknir fylgist með

Umhverfisstofnun hefur verið í sambandi við sóttvarnalækni. Hann hefur fylgst með hvort komum fólks til lækna á Suðurnesjum hafi fjölgað eða hvort öndunarfærasjúkómum, öndunarfæraeinkennum eða ávísun á öndunarfæralyf hafi fjölgað. Það hefur ekki verið raunin.

„Við ráðfærum okkur við sóttvarnalækni varðandi það. Þar erum við að velta því fyrir okkur hvort ástæða er til að vara íbúa við en við höfum ekki séð ástæðu til þess enn sem komið er,“ segir Sigrún.

Kvarta eftir að ofn er stoppaður 

Hún nefnir aftur á móti á að ítrekaðar lyktarkvartanir hafi verið lagðar fram og þess vegna sé full ástæða til að bregðast við þeim. Iðulega tengjast kvartanirnar þeim tíma þegar ofn er stoppaður í verksmiðjunni. Við úrvinnslu á ábendingum sé litið til þess hvaða vindáttir voru ríkjandi á þeim tíma sem kvartanir berast.

„Við gerum ráð fyrir því að fólk sé að segja okkur hvað það er að verða vart við og berum ekki sérstaklega brigður á það.  Við berum heldur ekki brigður á það þegar fólk segist ekki finna neitt,“ segir hún en einn aðili setti sig í samband við Umhverfisstofnun vegna þess.

Ljósmynd/United Silicon

Lyktaráhrif ekki tilgreind

Sigrún bendir á að í matsferli og umsókn um starfsemi eigi að gera grein fyrir öllum mögulegum áhrifum af starfsemi sem getur haft í för með sér mengun. Ekki hafi verið gert ráð fyrir lyktaráhrifum í aðdraganda leyfisveitingar til United Silicon en ólykt er skilgreind sem mengun. „Við gerum ráð fyrir að rekstraraðli geri sér grein fyrir öllum áhrifum sem geta orðið og skipuleggi mengunarvarnir í kringum það,“ segir hún.

Ekki frá öðrum fyrirtækjum

Í athugasemd United Silicon kom fram að lyktin sem íbúarnir hafa kvartað yfir gæti vel hafa komið frá öðrum fyrirtækjum á svæðinu. Sigrún er ekki á sömu skoðun og segir Umhverfisstofnun þekkja ágætlega áhrifin af þeirri starfsemi sem hefur verið þar árum saman. „Það verður mjög greinileg aukning í kvörtunum eftir að þessi starfsemi fer af stað.“  

Sigrún tekur fram að bréf Umhverfisstofnunar ekki haft uppi neinar hótanir í bréfi sínu til United Silicon heldur sé stofnunin aðeins að nýta sínar heimildir til að fylgja eftir niðurstöðum eftirlits.

United Silicon hefur 14 daga til að bregðast við bréfi Umhverfisstofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert