Það var einn af þessum sólskinsdögum í febrúar þegar ekki bærðist hár á höfði, himinninn var vatnsblár og maður átti næstum von á að sjá lóuna á næstu þúfu. Erindið út fyrir bæjarmörkin var að hitta rithöfundinn, heimskonuna og náttúrubarnið Unni Þóru Jökulsdóttur en hún hefur frá ýmsu að segja. Unnur býr nánast í paradís, fjarri ys og þys borgarinnar, við Elliðavatn. Hún tekur á móti blaðamanni með bros á vör og býður í bæinn og skenkir kaffi í bollana. Í sveitakyrrðinni er gott að tala.
Þó að langt sé um liðið er ekki úr vegi að spyrja Unni um skútusiglinguna um heiminn, ferð sem entist í heil fimm ár. Muna margir eftir bókunum tveimur um ævintýrin á skútunni Kríu. „Ég tók stúdentinn úr MR og fór svo í leikhúsfræði í Kaupmannahöfn en flosnaði upp úr því námi, mér fannst það leiðinlegt og þurrt. Svo var ég komin á kaf í annað en ég var farin að smíða skútu með kærastanum mínum þáverandi. Við vorum með þann draum að sigla um heiminn á þessari skútu og það tók yfir. Ég ákváð þá að ég myndi læra miklu meira af því heldur en að vera í þessum háskóla,“ segir hún en smíði skútunnar tók þrjú ár.
Að lokinni smíðinni á Kríu sigldu þau Þorbjörn Magnússon um heim allan og skrifaði Unnur tvær bækur um lífið um borð og staðina sem þau heimsóttu. „Við vorum fimm ár að sigla. Þetta var lífsstíll. Við vorum ekki með fyrirfram ákveðið plan að komast frá einum stað til annars. Við sigldum um og ef okkur líkaði vel einhver staður vorum við kannski lengi þar,“ segir hún um þetta ævintýralíf.
Kjölfar Kríunnar og síðari bókin Kría siglir um Suðurhöf slógu í gegn. „Ég heyri í fólki sem segist lesa þessar bækur reglulega og njóta þess að ferðast í gegnum lesturinn. Mér þykir vænt um hvað þær hafa orðið langlífar. Þær eru bestu minjagripirnir,“ segir Unnur sem hélt dagbók allan tímann.
„Þetta byrjaði þannig að ég fór að skrifa systur minni Elísabetu bréf og svo hélt ég líka dagbók. Þegar ég kom til Ástralíu var ég að springa úr þörf til að koma þessu í eitthvert form og við ákváðum að gera það saman, við Þorbjörn. Við deildum þessu niður á okkur og vissum ekki hvað hitt væri að gera fyrr en að loknum skrifum,“ útskýrir Unnur og segir þau þá hafa púslað því saman sem þau höfðu skrifað.
Á ferðum sínum um heiminn stöldruðu þau sums staðar við, í lengri eða skemmri tíma. Þau settust að í Ástralíu og voru þar í tvö ár og líkaði vel. „Náttúran er æðisleg og það er gott að vera þar útlendingur,“ segir Unnur. Hún fór í Sydney Art School og lærði keramik og vann einnig við skriftir.
„Við höfðum selt íbúð hér heima og lifðum á því, lifðum reyndar mjög spart. Það entist okkur einhver ár. Svo seldum við bókina líka. Við unnum líka við að passa hús fyrir fólk og dýrin þess. Þetta var í fínum hverfum og við fengum glæsivillur með fínum hundum og köttum og jafnvel lykla að sportbílum og vínkjöllurum,“ segir hún og hlær. „Við bara fluttum inn með ritvélarnar okkar, skrifuðum og fórum í göngutúra með fínu hundana.“
Hvað er minnisstæðast úr þessu skútuævintýri, svona eftir á að hyggja?
„Ég hef alltaf fundið hvað það var dýrmætt að hafa gert þetta, ég get kannski ekki sett það í orð. Minningar og reynsla sem er mjög dýrmæt og mér finnst það hafa gefið mér einhvern styrk sem ég hef alltaf búið að. Nokkrir staðir lifa í minningunni og standa upp úr. Galapagos, og dýralífið þar, eyðidalir á eyjunum í Kyrrahafi þar sem við bjuggum lengi. Eins Afríka, mér fannst æðislegt að vera þar, þrátt fyrir fátæktina. Við vorum lengi á Grænhöfðaeyjum sem er ótrúlega tregafullur og sterkur staður. Og svo Ástralía. Og að vera á úthafinu, dag eftir dag, það er engu líkt. Að vera ein á næturvöktum og vera með allan stjörnuhimininn fyrir ofan sig. Ein í heiminum og svo mætir maður kannski mörg hundruð höfrungum sem synda með skútunni í nokkra tíma. Mér finnst núna ótrúlegt að þetta hafi gerst,“ segir hún.
Unnur segist hafa fundið sterkt fyrir alheiminum þegar hún horfði upp í stjörnuhimininn, á lítilli skútu úti á ballarhafi. „Það komu augnablik sem mér fannst ég skilja alheiminn. Að ég væri pínulítið korn í þessum alheimi. Ég skynjaði hvað væri djúpt niður á sjávarbotninn og hvað væri langt upp til stjarnanna. Fann einhvern samhljóm með öllu eitt augnablik. Ótrúlega sérstakt. Einhver alheimsskilningur sem maður heldur að maður geti haldið í og haft alltaf. En svo situr bara minningin eftir og maður verður aftur þessi dauðlega vera með dægursveiflur,“ segir hún og brosir.
Unnur á ekki langt að sækja ritlistarhæfileika, en faðir hennar var Jökull Jakobsson leikskáld sem lést langt fyrir aldur fram.
Þekktirðu pabba þinn vel?
„Hann var frekar lélegur helgarpabbi, getur maður sagt. Það var engin regla á því á þessum árum hvenær við hittumst og mamma var ein með mig. Ég hitti hann og systkini mín í barnaafmælum eða hann kom og fór með mig á Mokka að hitta alla bóhemavini sína.“
Jökull eignaðist fimm börn. Unnur er elst, svo Elísabet, Illugi, Hrafn og síðastur kom Magnús Haukur.
„En við pabbi kynnumst almennilega þegar ég varð táningur, svona fjórtán ára. Þá fórum við að ná vel saman og urðum mjög góðir vinir. Hann kom svo síðar og bjó hjá mér á Ísafirði síðasta veturinn áður en hann dó,“ segir Unnur. „Það var rosalegt áfall,“ segir hún en Jökull var aðeins 44 ára þegar hann lést og Unnur aðeins rúmlega tvítug. „Mér fannst ég nýbúin að eignast hann. Þetta var mikið áfall fyrir okkur öll.“
Var hann skemmtilegur?
„Já, hann var svo rosalega skemmtilegur. Það kviknaði alltaf eitthvert líf þegar hann kom inn í herbergið. Það var alla vega mín upplifun. Og við vorum sálufélagar. Hann sagði mér allt, alla ævisögu sína, þennan vetur á Ísafirði,“ segir Unnur en á þessum tíma vann Jökull að leikriti sem átti að gerast á togara.
„Hann dó úr hjartaáfalli þegar verið var að æfa leikritið. En vissulega hafði lífernið hans tekið sinn toll og eftir á hugsar maður hvað hann afkastaði miklu þrátt fyrir það að hann var mikill alkóhólisti. Hann hafði skrifað mikið, mörg leikrit og útvarpsþætti, og átti fimm börn.“
Áfengi var eins og rússnesk rúlletta
Þú hefur ekki fengið þau gen frá honum, alkóhólistagenin?
„Jú, jú, ég fékk þau líka. Ég hætti alfarið að drekka 1998. Ég fór í meðferð og það var mikið gæfuspor. Áfengi var eins og rússnesk rúlletta fyrir mig, stundum gekk það ágætlega og stundum gekk það alls ekki vel. Þannig að það var alltaf kvíði og áfengi truflaði mig. Mér finnst það æðislegt að hægt sé að fara í meðferð og fá aðstoð við þetta,“ segir Unnur.
Hún segist hafa fallið einu sinni og tók það hana ár að ná sér aftur á strik. „Það var lærdómur í því. Það var rosalega erfið reynsla. Það tók ár og þá gat ég hvorki verið þar né hinum megin. Það varð til þess að ég fann að það var engin leið til baka, ég yrði að sleppa þessu. Og þá hætti ég aftur, að eilífu, einn dag í einu,“ segir hún og hlær.
Þegar þarna var komið kviknaði hugmynd hjá Unni að ættleiða barn, en sú hugmynd var ekki alveg ný af nálinni. „Ég hafði íhugað ættleiðingu áður en ég skildi en það varð ekkert af því. Ég hafði gert upp þessi mál og hafði alveg sætt mig við að vera barnlaus. Það var djúpur þunglyndispakki en ég kom sterk út úr honum. En svo barst það mér til eyrna að nú mættu einstæðir sækja um að ættleiða. Mér fannst ég vera í góðri aðstöðu til að gera það. Ég hafði ekki langan tíma af því að ég var að falla á aldri og gaf mér viku til að hugsa um þetta,“ segir hún en hún var þá orðin 45 ára. „Ég sótti um barn frá Kína og svo þurfti ég að bíða í tvö ár. Það er það besta sem ég hef gert um ævina, að ættleiða þessa stúlku. Ég er einstaklega heppin með hana en þetta eru allt dásamleg börn sem ég þekki þaðan. Hún er fjórtán ára í dag og ákaflega skemmtileg og vel gerð stúlka,“ segir Unnur en Alda var ellefu mánaða þegar móðir hennar sótti hana til Kína.
Unnur segist njóta þess að flytja sig um set á hverju vori. „Mér finnst það æðislegt. Ég fæ útrás fyrir tilbreytingarþörfina sem ég virðist hafa.“ Hún nýtur náttúrunnar við Mývatn en hefur áhyggjur af ferðamannastraumnum.
„Mér finnst það vandamál hvað ferðamennirnir eru orðnir margir þar, við finnum mikið fyrir því. Þetta er álag á samfélagið. Mér finnst lífríkið þar svo dýrmætt að ég hefði viljað sjá hömlur á túrismanum. Ég hef draumsýn um að hótelin væru annars staðar og umferðin mjög takmörkuð. Það væri komið með ferðamenn á rafknúnum farartækjum sem menguðu ekkert. Þeir myndu upplifa hæga ferðamennsku, gætu skoðað undur lífríkisins og jarðfræðina. En þá er akkúrat verið að gera það gagnstæða. Það er verið að reisa stór hótel með öllu sem því fylgir. Það hryggir mig mjög. Ég hef áhyggjur af þessu einstaka lífríki, en þetta er að gerast alls staðar. Ég hef áhyggjur af náttúru Íslands og áhyggjur af hnettinum. Hvað verður um komandi kynslóðir?“ spyr hún og það er fátt um svör hjá blaðamanni.
Nýjasta bók Unnar, Undur Mývatns, fjallar um lífríkið við Mývatn og kemur út innan skamms. Vinnan í Náttúrurannsóknastöðinni kveikti áhuga hjá Unni og rithöfundurinn í henni fann þörf á að miðla því áfram. „Mér fannst svo áhugavert allt það sem Árni og samstarfsfólk hans veit um; æviferill húsandarinnar, örverurnar í vatninu sem ég fékk að skoða í smásjá og svo eru oft svo uppbyggilegar og skemmtilegar samræður á meðal vísindamannanna sem dvelja þarna. Mig langaði að opna þetta fyrir öðrum,“ segir hún en bókin er hugsuð fyrir almenna lesendur. „Það er svo mikill fróðleikur sem er áhugaverður og skemmtilegur sem er oft falinn inni í fræðigreinum sem fáir lesa,“ útskýrir Unnur.
Í bókinni eru engar ljósmyndir heldur vatnslitamyndir, flestar eftir Árna, mest fuglamyndir.
Þú virðist, í gegnum lífið, sækja í friðsæld. Hvað veldur?
„Það er mér mjög mikilvægt að vera í friðsæld og náttúru. Ég elska að ganga hér í Heiðmörkinni, helst með hundi af því að það er góður félagsskapur. Góður hundur kennir manni að vera í núinu. Hann þefar af þúfu og horfir á nærumhverfið og hann er ekki að tapa sér í áhyggjum eða hugsunum.“
Ítarlegt viðtal við Unni er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.