Hvert lag talar fyrir sig

„Það er fátt sem hreyfir meira við mér heldur en …
„Það er fátt sem hreyfir meira við mér heldur en tónlist og ég er ekki í vafa um að ég hafi fengið gott tónlistarlegt uppeldi frá elskulegum foreldrum mínum,“ segir Jökull Júlíusson. Ljósmynd/Jason Rardin
Mosfellska rokksveitin Kaleo er stífbókuð í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar á þessu ári og því næsta. Jökull Júlíusson, forsprakki sveitarinnar, segir það forréttindi að vinna við það sem hann elskar, að semja tónlist og flytja hana. Það geti að vísu verið lýjandi að halda 300 tónleika á ári en á móti kemur að „það er frábær og gefandi tilfinning þegar milljónir manna um allan heim eru að hlusta á og lofsama verkin þín“. 
„Ég vonast til að komast sem mest inn í stúdíóið í ár og taka upp nýja tónlist. Það virðist oft erfitt að finna tíma til að gera annað en túra þegar dagskráin er eins stíf og hún er. Það er aftur á móti lúxusvandamál, eins og sagt er. Þetta ár er fullbókað og skipulag fyrir 2018 er langt komið en eins og ég segi þá er ég farinn að huga að nýrri tónlist og næstu plötu.“

Þetta segir Jökull Júlíusson, lagahöfundur, söngvari og gítarleikari mosfellsku rokksveitarinnar Kaleo, sem er þessar vikurnar á tónleikaferðalagi um Bandaríkin en hljómsveitin hefur sem kunnugt er gert út þaðan undanfarin misseri.

Spurður hvort þetta nýja efni sé rökrétt framhald af síðustu plötu eða hvort stefnan verði tekin í nýjar áttir og hvenær næsta plata komi út svarar Jökull: „Ég get ekki sagt til um það nákvæmlega hvenær næsta plata kemur út en tónlistin verður áfram fjölbreytt og talar hvert lag fyrir sig.“

Túra með Lumineers

Við Jökull höfðum mælt okkur mót meðan hann var staddur hér heima í stuttu fríi í síðasta mánuði en hann var svo óheppinn að næla sér í flensu og varð að aflýsa viðtalinu. Í stað þess að bíða eftir næstu heimsókn ákváðum við að færa okkur tæknina í nyt og henda á milli okkar tölvupóstum yfir hafið. Á þeim samskiptum byggist þetta viðtal.

„Við erum sem stendur á einskonar útvarpstúr hér í Bandaríkjunum, auk þess að taka þátt í viðburði á Steelers Stadium í Pittsburgh, Pennsylvania, um síðustu helgi. Svo förum við á tónleikaferðalag með Lumineers allan mars,“ upplýsir Jökull. „Sá túr verður í Bandaríkjunum og Kanada. Eftir það verðum við svolítið með okkar tónleika á vesturströndinni og í Flórída. Við tekur síðan svokallað „festival season“, þar sem að við munum koma fram víða um Bandaríkin og mikið í Evrópu í sumar.“

– Hvernig hefur gengið að hasla sér völl vestra?

„Það hefur gengið virkilega vel þó að ég segi sjálfur frá. Þetta er auðvitað gífurleg vinna en það er mjög gaman að sjá það skila sér.“

300 tónleikar á ári

– Er þetta líf eins og þú hafðir gert þér í hugarlund?

„Ég vissi satt að segja ekki alveg við hverju var að búast áður en ég flutti hingað út en þetta er vissulega mikil breyting. Sumir dagar eru frábærir og sumir eru það ekki. Síðustu ár hafa verið mikið ævintýri og ég lít svo á að ég sé mjög lánsamur að geta unnið við það sem ég elska, að semja tónlist og flytja hana. Þetta er samt vissulega mikil vinna og oft og tíðum lýjandi þegar þú ert að spila yfir 300 „show“ á ári.“

– Oft og tíðum lýjandi, segirðu. Skyggir ánægjan samt ekki á þá tilfinningu?

„Þetta getur verið lýjandi. Ég hef mikið fyrir því að hugsa vel um mig til þess að hafa úthald í þetta allt saman. Oftast er þetta mikil keyrsla og lítill tími til að slaka á. Á móti kemur að það er frábær og gefandi tilfinning þegar milljónir manna um allan heim eru að hlusta á og lofsama verkin þín og þú færð að ferðast um heiminn og spila á allskonar stöðum þar sem fullir salir af fólki syngja með þér lögin þín.“

– Hvers vegna hentar Ameríka ykkur svona vel?

„Ég veit ekki hvort Ameríka hentar okkur betur en eitthvað annað. Ég kann vel við að vera í Ameríku og vildi alltaf taka þar upp tónlist og koma fram. Eftir að hafa samið við Atlantic Records og öll þau fyrirtæki sem við vinnum með hér úti var rökrétt framhald að flytja út. Fókusinn var aðallega settur á Ameríku fyrstu tólf til átján mánuðina en núna erum við einnig duglegir að fara til Evrópu og Ástralíu þar sem gengur einnig mjög vel.“

Hlutirnir gerast hraðar í Evrópu

– Þannig að Evrópa er að taka vel við sér?

„Já, við höfum farið tvisvar á Evróputúr síðustu fjóra mánuðina vegna mikillar eftirspurnar og það er virkilega gaman að sjá viðbrögðin þar. Hlutirnir virðast líka gerast miklu hraðar í Evrópu en í Ameríku vegna þess meðal annars hvernig útvarp gengur fyrir sig í Bandaríkjunum. Það er svo gríðarlega stór markaður að þú getur verið með eitt lag mjög lengi í spilun á meðan Evrópa er með líkara sniði og þekkist heima á Íslandi. Við komum til með að ferðast mikið innan Evrópu í sumar á hinum ýmsu tónlistarhátíðum.“

– Hvaðan kemur innblásturinn? Að heiman? Utan?

„Alls staðar að held ég. Ég byrjaði að semja lög mjög ungur og hef alltaf haft gott eyra fyrir tónlist. Það er fátt sem hreyfir meira við mér heldur en tónlist og ég er ekki í vafa um að ég hafi fengið gott tónlistarlegt uppeldi frá elskulegum foreldrum mínum. Ég hef nánast alltaf verið hálfgerð alæta sem hlustandi og ég held að það hjálpi mér á vissan hátt. Ég sem mjög ólík lög og hef alltaf gert. Eitt það besta og skemmtilegasta við tónlist að mínu mati er það hvað hún er fjölbreytt.“

– Hvað með sérstöðu söngraddar þinnar? Hvernig viðbrögð færðu við henni?

„Ég lít meira á sjálfan mig sem lagahöfund en söngvara. Það er kannski af því að ég byrjaði að semja lög áður en ég byrjaði að syngja. Auðvitað er það hið besta mál ef fólki líkar við röddina og heiður en ég er aðallega að tjá lögin mín og textana.“

– Fólk virðist augljóslega kunna að meta röddina; alltént varstu valinn söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum á fimmtudagskvöldið.

„Já, það er mikill heiður fyrir mig, sérstaklega í ljósi þess hvað við eigum mikið af frábærum söngvurum og tónlistarfólki á Íslandi.“

– Og A/B var valin plata ársins.

„Það er gaman að fá þá gríðarlegu viðurkenningu. Ótrúlega gaman að finna stuðninginn heima á Íslandi og þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig og okkur.“

Svefninn hvað mikilvægastur

– Hvernig gengur að halda röddinni við undir svona miklu álagi?

„Það getur verið erfitt að halda röddinni undir miklu álagi og ég hef þurft að laga mig að þessum lífsstíl. Sérstaklega þar sem við ferðumst ótrúlega mikið og erum oft að fara á milli heimsálfa og tímamismunurinn er mikill. Svefninn er hvað mikilvægastur myndi ég segja ásamt því að næra sig rétt og hugsa vel um sig. Svo er ég líka með fólk í öllum stöðum sem aðstoðar mig eftir bestu getu, eins og til dæmis raddþjálfara.“

– Hvernig er samkomulagið við félagana í bandinu í þessu ofboðslega návígi sem skapast á svona tónleikaferðum?

„Samkomulagið er fínt. Ég ferðast um í minni rútu og þeir eru með aðra svo að það er svolítið svigrúm. Við erum með margt fólk í vinnu sem ferðast með okkur, sem einfaldar töluvert lífið fyrir okkur. Við þurfum því ekki að koma eins mikið að uppsetningu og fleiru við tónleikahald. Það nægir í raun að „sándtékka“ og svo spila um kvöldið. Við það skapast frítími yfir daginn og eftir tónleika á kvöldin. Við höfum flestir þekkst mjög lengi og ég held að það hjálpi til.“

– Hvað með ræturnar á Íslandi, eru þær alltaf jafnsterkar?

„Maður gerir sér líklega ekki grein fyrir því hversu sterk þjóðarástin er fyrr en maður fer út fyrir landsteinana. Ég er ótrúlega heppinn með fjölskyldu og vini og nýti hvert tækifæri sem gefst til að fara heim og hlaða batteríin og njóta með því góða fólki.“

Myndböndin vekja athygli

– Þið hafið líka verið duglegir að taka myndbönd við lögin ykkar upp heima á Íslandi.

„Það hefur verið mjög skemmtilegt að gera þessi myndbönd sem við höfum gert heima á Íslandi. Þetta hafa verið gríðarlega krefjandi verkefni en við höfum verið að gera þetta með svo frábæru fólki. Vinir okkar í Eyk Studio hafa verið með okkur og svo hafa allir verið meira en tilbúnir að leggja hönd á plóginn. Bæði starfsfólkið hjá Þríhnúkagíg og svo Kári og hans fólk í Fjallsárlóni. Ótrúlega skemmtileg verkefni og þetta vekur gífurlega athygli hér úti svo ekki sé meira sagt.“

– Þú segir að árið sé fullbókað. Það er þá engin von til þess að þið spilið hér á landi á þessu ári?

„Því miður þá er allt árið uppbókað og lítur ekki út fyrir tónleika á Íslandi, allavega í bili.“

– Ég má til með að henda einni Mosó-spurningu á þig. Allir vita að Sigur Rós er þaðan, þið og Ólafur Arnalds og öllum hefur gengið vel erlendis. Kanntu einhverja skýringu á því hvers vegna mosfellskt rokk er svona vænlegt til útflutnings?

„Það er góð spurning. Mér þykir bærinn hugsa vel um sitt listafólk og hann skaffaði okkur til dæmis æfingaaðstöðu fyrstu árin þegar við vorum að byrja. Ég finn fyrir miklum stuðningi frá sveitungum mínum sem er frábært enda hvergi betra að vera en heima í Mosó.“

Allir að tala um Ísland

– Hvað finnst þér annars um íslensku músíksenuna um þessar mundir? Nærðu að fylgjast eitthvað með og hvernig líst þér á gerjunina?

„Mér þykir hún mjög fjölbreytt og vaxandi og hefur verið síðustu ár. Það er líka gaman að sjá þessi festivöl heima verða til og vaxa eins og hratt og þau hafa gert. Músíksenan á Íslandi hefur líklega aldrei verið frambærilegri og virkilega gaman að vera partur af því.“

– Almennar vinsældir Íslands hafa líklega aldrei verið meiri úti í heimi, tónlist þar á meðal. Finnið þið ekki fyrir þessu?

„Jú, maður finnur hvað það er ótrúlega mikill fókus á Ísland um þessar mundir. Það eru einhvernveginn allir að tala um Ísland eða fara til Íslands. Ég held að íslensk tónlist njóti góðs af því, án efa.

Þetta er vissulega frábært að mörgu leyti og við höfum séð ótrúlega aukningu í ferðamannaiðnaðinum.

Ég hef aftur á móti áhyggjur af auðlindum og náttúruperlum landsins í kjölfar þessarar fjölgunar ferðamanna sem og virkjunaráformum á hálendinu. Við þurfum að passa vel upp á það náttúruundur sem Ísland er og hafa náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi.“

– Úr því við erum komnir út í pólitík er ekki úr vegi að spyrja þig um andrúmsloftið í Bandaríkjunum um þessar mundir, þar sem þú þeytist stranda á milli. Finnst þér það hafa breyst eftir valdatöku Trumps og hvernig þá?

„Ég hef ekki fundið mikið fyrir breytingum persónulega síðan Trump tók við embætti en auðvitað er þetta mikið í umræðunni og í fjölmiðlum hvert sem þú ferð.

Það var mjög sérstakt að upplifa kvöldið þegar Trump vann kosningarnar. Ég var í Austin, Texas, það kvöld og fólk var almennt í sjokki.“

Kaleo: Daníel Kristjánsson, Davíð Antonsson, Jökull Júlíusson og Rubin Pollock.
Kaleo: Daníel Kristjánsson, Davíð Antonsson, Jökull Júlíusson og Rubin Pollock. Ljósmynd/Nitin Vadukul
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert