Í samræmi við fyrri ummæli

Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla …
Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta kemur ekki á óvart og er í samræmi við það sem Guðni [forseti Íslands] hefur áður sagt bæði sem fræðimaður og einnig í forsetakosningunum,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands um skoðanir Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, um landsdóm og synjunarvald forseta Íslands.

Guðni segir það hafi verið feigðarflan eftir hrun að nýta forn og úrelt ákvæði í stjórnarskrá um landsdóm. Það hafi sýnt sig að niðurstaða dómsins hafi fremur sundrað en sameinað og það á versta tíma. Guðni ræðir einnig um synjunarvald forsetans og segir að hann eigi ekki að beita því eftir heimatilbúnum reglum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu er vísað í viðtal við Guðna sem birtist í tímaritinu Lögréttu sem kemur út í dag.    

Stefanía bendir á að Guðni hafi gagnrýnt forvera sinn í starfi, Ólaf Ragnar Grímsson, fyrir að beita synjunarvaldinu. Það hafi hann til dæmis gert opinberlega í fjölmiðlum. „Guðni hefur alltaf talað fyrir því að forsetaembættið ætti ekki að vera pólitísk og að það ætti einnig að vera valdaminna en það var í tíð Ólafs,“ segir Stefanía.

Guðni segir einnig í Lögréttu að hver sá sem sitji á Bessastöðum og taki við áskorunum um að synja lögum staðfestingar verði að hafa ástæðu, einhver haldbær rök, til þess að verða við slíkri beiðni. Í því samhengi nefnir hann sem dæmi að til þess þurfi ákveðinn fjölda kjósenda. 

Stefanía segir að í forsetakosningunum hafi hann verið spurður um breytingar á stjórnarskránni. Þar hafi hann svarað því til að kjósendur ættu að hafa valdið og vísaði í breytingar á stjórnarskránni sem lágu fyrir en voru ekki samþykktar og vörðuðu synjunarvald forsetans. Til þess að forseti myndi ekki staðfesta lög frá Alþingi þyrfti undirskrift frá 15% kjósenda þar sem skorað væri á forseta beita synjunarvaldi.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert