Með nær 30 þúsund titla

Reynir Maríuson hefur staðið vaktina í Aðalvídeóleigunni á Klapparstígnum nánast …
Reynir Maríuson hefur staðið vaktina í Aðalvídeóleigunni á Klapparstígnum nánast í þrjá áratugi. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrir um 30 árum voru vídeóleigur á hverju horni en nú eru þær ámóta algengar og hvítir hrafnar. Aðalvídeóleigan á Klapparstíg 37 í Reykjavík stendur enn undir nafni og Reynir Maríuson hefur staðið þar vaktina nánast í þrjá áratugi.

„Er lífið ekki svolítið þannig að maður flýtur með straumnum niður ána, svo kvíslast hún og fyrir einhverja tilviljun rennur maður í einhverja kvísl,“ segir Reynir spurður um hvers vegna hann hafi opnað vídeóleigu á sínum tíma. Leggur samt áherslu á að ævilangur áhugi á kvikmyndum sé fyrst og fremst ástæðan.

Hugsjónaeldur og stórt hjarta

Aðalvídeóleigan hefur alltaf verið opin frá klukkan þrjú á daginn til klukkan hálftólf á kvöldin. „Afgreiðslutíminn tekur mið af lífinu í miðbænum og hentar því vel,“ segir Reynir. „Fólkið hérna er ekki mikið að æsa sig fyrir hádegi og rjúka út til að leigja myndir.“

Hilluveggir Aðalvídeóleigunnar eru þaktir af gömlum VHS-spólum.
Hilluveggir Aðalvídeóleigunnar eru þaktir af gömlum VHS-spólum. mbl.is/Árni Sæberg


Úrvalið í Aðalvídeóleigunni hefur alltaf verið mikið. Reynir segir að í byrjun hafi hann komið sér upp gríðarlega miklu safni af myndum á VHS-spólum. DVD hafi síðan tekið markaðinn yfir á ótrúlega stuttum tíma. „Ég hef því þurft að koma mér upp safninu tvisvar en áherslurnar hafa lítið breyst,“ segir hann. Bendir á að hann hafi alla tíð lagt áherslu á að bjóða upp á svokallað heimsbíó (World Cinema), myndir frá ýmsum heimshornum, þekktar og óþekktar, bæði svonefndar költmyndir, listrænar myndir, Hollywood-myndir, seríur og fleira. „Ég er alls með rétt undir 30 þúsund titla, en í gamla daga var algengt að flottar leigur væru með þrjú til fimm þúsund titla.“

Reynir segir að Woody Allen sé vinsælasti leikstjórinn frá upphafi, en annars séu óskir viðskiptavina nánast jafnmargar og þeir séu. Því skipti öllu að vera með mikið úrval.

Leigan er ekki í stóru rými og á bak við í afgreiðslu eru hilluveggir þaktir af gömlum VHS-spólum. „Það var fátt annað hægt að gera við spólurnar,“ segir Reynir. „Leigan sjálf er ekki stór en hugmyndin, hugsjónin og hjartað í henni er miklu stærra,“ heldur hann áfram.

Hann segir að samkeppnin frá sjónvarpsstöðvum og símafyrirtækjunum sé eðlileg, en ólöglega niðurhalið sé annars eðlis. „Það er gegndarlaust jafnt hér sem erlendis. Þetta er miklu alvarlegra mál en fólk vill viðurkenna og vegna þessa tapast miklar tekjur og miklir skattar.“

Nóg er af spólum og diskum í Aðalvídeóleigunni.
Nóg er af spólum og diskum í Aðalvídeóleigunni. mbl.is/Árni Sæberg


Ferðamenn leggja gjarnan leið sína í Aðalvídeóleiguna en fæstir til þess að leigja myndir. „Þeir líta fyrst og fremst á þetta sem safn, eru dolfallnir að enn skuli vera til vídeóleiga með svona mikið úrval,“ segir Reynir. „Fjórða kynslóð viðskiptavina er farin að mæta til okkar og önnur og þriðja kynslóð eru bara nokkuð algengar, en þetta er þó að verða ansi þungur róður. Vekja má athygli á því að kvikmyndahátíðir og annað tengt afþreyingu hefur haft góðan aðgang að styrkjum og hjálp, sem við höfum því miður ekki notið.“

Reynir segir að hugsjónaeldurinn haldi sér gangandi. „Ég hef ógurlega gaman af þessu og hef sem betur fer aldrei orðið svo veikur að ég geti ekki mætt í Aðalvídeóleiguna,“ segir Reynir, betur þekktur undir nafninu Aðal-Reynir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert