Þetta er svolítið ávanabindandi

Ástþór á stofunni að flúra krumma á upphandlegg konu.
Ástþór á stofunni að flúra krumma á upphandlegg konu. mbl.is/Sigurður Ægisson

Ástþór Árnason, 24 ára gamall Siglfirðingur, hefur vakið mikla athygli fyrir glæsilegar tattúskreytingar sínar, en sú listgrein hefur átt hug hans allan allt frá því að hann lét setja fyrstu myndina á handlegginn á sér á Akureyri, þá 18 ára gamall.

„Ég byrjaði að teikna mjög ungur, eða um svipað leyti og ég fór að læra stærðfræði, held ég; þá fór maður að láta hugann reika, og þetta hefur fylgt mér síðan,“ segir hann spurður um það hvenær hann hafi byrjað að teikna.

„Eftir nám í grunnskóla á Siglufirði hélt ég á Listnámsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri, en svo fór Bergþór Morthens listmálari að kenna á Siglufirði og ég komst í einkatíma til hans. Þetta var í raun fjarnámskerfi sem hann bauð upp á, sem varð grunnurinn að listabrautinni í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Það var mjög góð reynsla. Og svo fór ég alveg yfir í MTR eftir að sá skóli var kominn á laggirnar.“

Sýnishorn af verkum Ástþórs.
Sýnishorn af verkum Ástþórs.

Eftirsótt nám

Eftir menntaskólann langaði Ástþór að sækja í húðflúrsnám í Reykjavík en vissi að það væri erfitt að komast inn, því samfélagið hér er lítið. Hann sótti því um í Listaháskóla Íslands en ákvað svo að senda sömu umsókn til Svans Guðrúnarsonar og fékk þar óvænt inni, sér til mikillar gleði, og byrjaði að læra.

„Húðflúrið er þannig að þú lærir bara af þínum meistara, þú ferð ekki í skóla. Þetta er svipað og var hér á öldum áður, þegar gömlu myndlistarmennirnir voru og hétu, þá lærði einn af öðrum. Tattúsagan er svo stutt að hún er ekki enn búin að þróast yfir í skólanám. Og ég efast um að það verði, enda eru skoðanir svo misjafnar í þeim heimi.“

„Ef þú ert að pæla í að fá þér tattú er best að skoða verkin hjá hverjum og einum. Þau geta verið mjög ólík, allir eru með sinn stíl og stílbragð. Það þarf hver og einn að finna sinn flúrara, sem er með þann stíl sem þeir fíla. Ég hef sjálfur farið víða eftir fyrstu myndina á Akureyri, er orðinn vel skreyttur. Ég var kominn með fulla ermi en er byrjaður að lýsa það upp, sem er hægt upp að vissu marki með leysigeisla, það fer eftir því hvernig það var sett niður í upphafi. Ég ætla svo að fá mér eitthvað nýtt.

Ástþór Árnason er vel skreyttur, kominn með fulla ermi.
Ástþór Árnason er vel skreyttur, kominn með fulla ermi.

Ég er sjálfur mikið að gera svona raunsæisverk, eftir ljósmyndum, og blanda oft saman við það öðru, sem kallast þá neo-traditional, það er eiginlega bara nýrri útgáfa af traditional. Ég myndi segja að um 95% þess sem ég er að gera sé í svart-hvítu en ég hef einnig gaman af því að vinna í lit svona inni á milli.“

Hann vinnur aðallega stórar myndir en er líka í hinum minni, ef fólk vill.

Ferðast með vinnuna

„Ég er búinn að vera í rúmlega eitt og hálft ár þar sem ég er að vinna núna, á Tattoo & skart, að Hjallahrauni 11 í Hafnarfirði. Við erum þrjú að flúra og vorum að taka inn nema að auki og svo fáum við reglulega gestaflúrara að utan. Það er mjög algengt og stór kostur í þessum bransa að geta ferðast með vinnuna sína. Þá fer maður inn á stofur hér og þar ef maður er með einhver sambönd eða getur sýnt fram á að maður kunni eitthvað í þessum fræðum.“

Ástþór er einmitt úti í Svíþjóð þessa dagana, í sinni fyrstu heimsókn í þessum erindagjörðum, að kynna verk sín. Svo er töluvert um ráðstefnur þar sem menn geta keppt og dreift nafninu sínu. 19.-21. maí næstkomandi er stefnan tekin á eina slíka í Færeyjum.

Sýnishorn af verkum Ástþórs.
Sýnishorn af verkum Ástþórs.

Hann auglýsir á samfélagsmiðlunum – www.facebook.com/astthortattoo, www.Instagram.com/astthortattoo og Snapchat (Toniarnason (inkslinger) – og mun sýna mikið frá ferðalaginu sínu til Svíþjóðar og Færeyja ef fólk vill fylgjast með.

Og það er brjálað að gera.

„Það er misjafnt hvernig tattúarar bóka sig, en ég bóka mig þrjá mánuði í senn og svo loka ég bókinni bara og opna hana að einum og hálfum mánuði liðnum, þannig að fólk þurfi ekki að bíða of lengi. Ég er svona viku að fylla hana aftur, í mesta lagi.

Við hönnum allt sjálf og erum á tímagjaldi. Ég tek ekki yngri en 18 ára í flúrun og sá elsti sem hefur komið var rúmlega sextugur. En mest er að koma til mín af fólki í kringum minn aldur. Það eru fastakúnnarnir.“

Sýnishorn af verkum Ástþórs.
Sýnishorn af verkum Ástþórs.

Og þetta er allt annað en auðveld vinna.

„Þetta tekur á líkamann, maður þarf að vera í alls konar stellingum til að ná á staðina og maður er oft þreyttur í bakinu eftir daginn. Þegar ég er ekki á stofunni að vinna er ég heima eða þar að undirbúa næstu verk. Þetta er orðið djarfara en áður fyrr, fólk byrjaði yfirleitt á stöðum þar sem það gat falið það auðveldlega, en nú í dag er meira um að fólk vilji hafa það á stöðum þar sem það getur auðveldlega sýnt það. Og þetta er svolítið ávanabindandi. Þegar fólk er komið með eitt vill það gjarnan meira,“ segir Ástþór Árnason.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert