Þurfa ekki að heyra um nauðganir frá nauðgara

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger sögðu frá nauðguninni á …
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger sögðu frá nauðguninni á TED-fyrirlestri. Skjáskot/TEDx

Aðstandendur Women of the World ráðstefnunnar sem fram fer í London um helgina hafa ákveðið að taka fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger af dagskrá. 

Skipuleggjendur segjast með þessu vera að bregðast við undirskriftasöfnun en rúmlega 2.300 manns höfðu skrifað undir þar sem þess var krafist að Stranger fengi ekki að koma fram á ráðstefnunni.

Fyrirlestur Þórdísar og Stranger hefur vakið mikla athygli en þar fjalla þau um átta ára sáttaferli eftir að Stranger nauðgaði Þórdísi þegar þau voru táningar. Þau segja frá nauðgun­inni, áhrif­um henn­ar á líf þeirra beggja og hvernig þau náðu sátt­um.

Bók­in Hand­an fyr­ir­gefn­ing­ar eft­ir Þór­dísi Elvu og Tom seg­ir sömu sögu en hún er vænt­an­leg 16. mars.

Á vefsíðu mótmælanna kemur fram að fyrirlesturinn hafi verið færður og verði fluttur í næstu viku og sé þar af leiðandi ekki hluti af ráðstefnunni. Ýmsir höfðu líst yfir áhyggjum vegna fyrirhugaðrar nærveru Stranger og töldu að hún myndi rifja upp slæmar minningar hjá þolendum kynferðisbrota.

„Við teljum þetta ekki rétta vettvanginn fyrir Stranger. Konur þurfa ekki að heyra um nauðganir frá nauðgara og fyrirlesturinn gæti vakið upp slæmar minningar hjá þolendum,“ segja skipuleggjendur undirskriftasöfnunarinnar. Þeir bæta við að þetta hafi verið helsta ástæðan fyrir því að fyrirlesturinn var færður af ráðstefnuhelginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert