Lægðirnar koma í röðum

Það eru umhleypingar í kortunum.
Það eru umhleypingar í kortunum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Búast má við hvössum vindhviðum undir Eyjafjöllum og í Öræfum síðdegis, að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

„Búast má við umhleypingum í veðrinu næstu daga. Vaxandi austanátt á landinu í dag, stormur sunnantil upp úr hádegi, en hægari norðan til fram á kvöld. Fer að rigna sunnan- og austan til þegar líður á daginn. Skilin ganga síðan norður yfir landið í nótt og í fyrramálið með rigningu eða slyddu í flestum landshlutum. Mun hægari suðlæg átt fylgir í kjölfarið með skúralofti. Næsta lægð nálgast síðan landið seint annað kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Norðaustlæg átt 5-13 m/s, dálítil él norðaustan til, en annars þurrt að kalla. Vaxandi austanátt með morgninum, 10-18 síðdegis, en 18-25 syðst, hvassast undir Eyjafjöllum. Fer að rigna sunnan- og austan til á landinu í dag, en annars skýjað með köflum og þurrt að mestu.

Austan 13-20 m/s seint í kvöld og víða rigning eða slydda, en talsverð rigning suðaustanlands. Dregur úr vindi og úrkomu seint í nótt og í fyrramálið, fyrst sunnan til. Fremur hæg suðlæg átt síðdegis á morgun, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en dálitlar skúrir sunnan til. Hlýnandi veður, hiti 0 til 6 stig síðdegis í dag, en heldur hlýrra á morgun.

Á laugardag:

Suðlæg átt 8-13 m/s. Dálítil slydda eða rigning norðantil fyrripart dags, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 6 stig. Gengur í austan 10-15 með rigningu syðst um kvöldið, en léttir til fyrir norðan og kólnar þar.

Á sunnudag:
Suðlægari áttir 8-15 m/s og rigning eða slydda, en úrkomulítið NA-til. Hiti 0 til 5 stig að deginum.

Á mánudag:
Ákveðin sunnanátt með slyddu eða rigningu í flestum landshlutum og hiti 0 til 5 stig. Suðvestan hvassviðri og éljagangur síðdegis og kólnar, en rofar til norðaustanlands.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt og él, en þurrt og bjart að mestu austanlands. Vægt frost, en yfirleitt frostlaust við sjóinn að deginum.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með vætu og heldur hlýnandi um tíma.

Á fimmtudag:
Vestlægar áttir, víða él og kólnar aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert