Máli Stofnunar múslima vísað frá

Karim Askari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi.
Karim Askari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá meiðyrðamáli Stofnunar múslima og tveggja stjórnarmanna samtakanna, Hussein Aloudi og Karim Askari, gegn Salmann Tamimi, formanni Félags múslima á Íslandi, 365 miðlum hf., ritstjóra fyrirtækisins, Kristínu Þorsteinsdóttur, og fréttakonunni Nadine Guðrúnu Yaghi vegna ummæla sem birtust á vefsíðunni Visir.is í júlí í fyrra.

Farið var fram á að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk. Jafnframt var krafist tveggja milljóna króna í skaðabætur.

Málið var upphaflega höfðað 25. október í fyrra.

Í dóminum kemur fram að forsaga málsins tengist meðal annars umfjöllun fjölmiðla hérlendis um úthlutun Reykjavíkurborgar á lóð til byggingar mosku og peningagjöf frá Sádi-Arabíu til styrktar byggingu hennar.

Þann 6. júlí 2016 birtist frétt á Visir.is sem Nadine Guðrún Yaghi skrifaði undir fyrirsögninni: „Þarf að bregðast við tengslum við hryðjuverkasamtök“.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur þetta fram:

„Að öllu framangreindu virtu þykja stefnendur hins vegar ekki hafa lagt þann grundvöll að málinu sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður. Málatilbúnaði stefnenda er svo áfátt að hann fullnægir ekki umræddum skýrleikakröfum laga um meðferð einkamála og er svo óglöggur að komið getur niður á vörnum stefndu. Verður því fallist á frávísunarkröfu stefndu.“

Stefnendum er sameiginlega gert að greiða Salmann Tamimi 600.000 krónur í málskostnað og stefndu 365 miðlum hf., Kristínu Þorsteinsdóttur og Nadine Guðrúnu Yaghi samtals 700.000 krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert