Fundaði með framkvæmdastjóra UN Women

Þorsteinn ásamt framkvæmdastjóranum, á hans vinstri hönd.
Þorsteinn ásamt framkvæmdastjóranum, á hans vinstri hönd. Ljósmynd/Velferðarráðuneytið

Norrænir ráðherrar jafnréttismála funduðu með Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóra UN Women, í tengslum við fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Ábyrgð karla í jafnréttismálum, baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru meðal umræðuefna á þeim fundi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Segir þar að Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hafi í umræðunum lagt áherslu á nauðsyn þess að stefna og ákvarðanir stjórnvalda taki mið af aðstæðum karla og kvenna.

Þá ræddi hann einkum um ábyrgð karla í jafnréttismálum og hve mikilvægt væri að þeir beittu sér fyrir jafnrétti kynjanna.

„Kynbundið ofbeldi er mjög skýrt dæmi um viðfangsefni stjórnmálanna þar sem ekki verða neinar framfarir nema karlmenn taki virka afstöðu gegn ofbeldinu,“ sagði Þorsteinn meðal annars, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Á fundinum þakkaði Phumzile norrænum stjórnvöldum öflugan fjárhagslegan og pólitískan stuðning við starfsemi UN Women, en yfir 40% heildarframlaga til stofnunarinnar koma frá Norðurlöndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert