Sigurbjörg hlýtur Rauðu hrafnsfjöðrina

Lárus Blöndal afhendir Sigurbjörgu Rauðu hrafnsfjöðrina.
Lárus Blöndal afhendir Sigurbjörgu Rauðu hrafnsfjöðrina. Ljósmynd/Krummi

Rauða hrafnsfjöðrin, verðlaun fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu í íslenskum bókmenntum, var veitt á aðalfundi Lestrarfélagsins Krumma í kvöld.

Að þessu sinni hlaut Sigurbjörg Þrastardóttir verðlaunin, fyrir árið 2016, fyrir örsagnasafn hennar Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur, sem JPV gaf út.

Svo hljómar lýsingin sem Sigurbjörg var verðlaunuð fyrir:

​„– Sæll, kallaði hún svo kannski þegar langt var liðið á kvöldið og nautabaninn hálfsofnaður yfir sjónvarpinu. 

– Hm?

– Heldurðu að þú réttir mér ekki sveðjuna þína? 

– Sveðjuna? Svona seint? 

– Já, Sæli minn. Geeerðu það. 

– En hvar eru örvasveinarnir? Eru þeir farnir? 

– Þeir eru löngu farnir, Sæli minn, þeir hituðu upp með mér í dag og það gekk mjög vel. Nú langar mig í sverðið þitt. 

Með herkjum brölti nautabaninn í Búðardal þá á fætur, lagði leifarnar af róstbíf-samlokunni á sófaborðið og jafnaði sig stutta stund á mæðinni. Líklega þyrfti hann að fara að leita læknis. Svo gekk hann rólega að þvottahúsdyrunum þar sem húsfreyja hans lá á fjórum fótum, augu hennar svört af þrá, og áður en hann lokaði augunum greip nautabaninn í Búðardal um dyrakarminn með sínum grönnu fingrum því hann vissi af fenginni reynslu að hann myndi þurfa gott grip.“

Lýsingar þeirra, sem einnig voru tilnefnd, fara hér á eftir:

Ljósmynd/Krummi

Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Eyland:

„Hann leysir af sér bindið og fellur á hné fyrir henni, leggur skjálfandi hendurnar á mjaðmir hennar, strýkur yfir kvið hennar, brjóstin og leitar samþykkis í augum hennar áður en hann tekur fast um rasskinnarnar og leggur andlitið upp að vandlega snyrtu lífbeininu, rennir tungunni inn í salta vætuna.

Hún heldur um höfuðið á honum með báðum höndum og stynur, og þegar hann kemur upp eins og drukknandi maður togar hún hann á fætur, ýtir honum niður á rúmið og leysir niður um hann buxurnar, klífur hann eins og fjall, sest ofan á hann og tekur hann eins og hún eigi hann, eins og hún hafi alltaf átt hann.“

Auður Ava Ólafsdóttir, Ör:

„Á leiðinni til baka gerðum við það. Það hafði rignt og mosinn var blautur og við fórum ekki úr fleiri fötum en nauðsynlegt var. Það var aðeins flóknara fyrir hana því hún var í einhvers konar samfestingi. Ég heyrði korr í rjúpu skammt frá og hugsaði, hvað sér fugl, hvað hugsar fugl? Þá stóð skyndilega rétt hjá okkur kind og horfði á okkur og ég sagði G að loka augunum. Og ég hugsaði, hvað sér kind, hvað hugsar kind?“

Sverrir Norland, Fyrir allra augum:

„Sjálfur fékk ég svona túrbó-fullnægingu þar sem heilinn í manni gufar upp og hjartað hamast eins og óð górilla í búrinu milli rifbeinanna og maður liggur stjarfur eftir, algjörlega þurrausinn, alsæll, og líður eins og nákvæmlega þetta sé tilgangur lífsins; að fá eins kröftuga fullnægingu og hægt er, allt annað sé bara hjóm.“

Sjón, CoDex, Ég er sofandi hurð:

„Aldrei fyrr hefur kona verið jafn áfjáð í hann, og þegar hún skýtur fram mjöðmunum og sýgur lim hans inn í logandi líf sitt megnar hann hvorki að veita sjálfum sér né henni nokkurn unað. Ein mínúta líður í ofsalegri fýsn. Það neistar fyrir augum hans og sæðið spýtist í snöggum gusum yfir í skaut hennar. Því er lokið.“

Andri Snær Magnason. Sofðu ást mín:

„Svart og hvítt IKEA-teppi, krómuð hilla og fermingargræjur, ekki með geislaspilara heldur plötuspilara, hann strauk henni klaufalega og hún hélt fast utan um liminn en hann var líka nýr í þessu og sæðið gusaðist út þegar hún handfjatlaði hann og henni brá vegna þess að hún hafði lært um sæði í skólanum en hún hélt að það væri einhvern veginn ósýnilegt, ekki að það væri svona mikið og klístrað.“

Sandra Bergljót Clausen, Fjötrar: 

„Hún strauk eftir stinnum rasskinnunum þegar hann renndi sér upp á hana. Limur hans nakinn við unaðshól hennar.“

Girndarráð, Sella Páls: 

„Limurinn létti á sér, hann stundi og allir klöppuðu.“

Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Tungusól og nokkrir dagar í maí:

„Komdu af hafi í kvöld og slíttu þennan kóngulóarvef í klofi mínu, fjarlægðu hann, mjúkt með heitum fingrum. Settu báðar tungur þínar á geirvörtur mínar og sjúgðu steinana þangað til þeir leysast upp og hverfa inn í þig.“

Þetta er í ellefta sinn sem viðurkenningin er veitt.

Fyrri hrafnsfjaðrarhafar eru Eiríkur Örn Norðdahl fyrir Eitur fyrir byrjendur 2006, Elísabet Jökulsdóttir fyrir Heilræði lásasmiðsins 2007, Hermann Stefánsson fyrir Algleymi 2008, Steinar Bragi fyrir Himininn yfir Þingvöllum, 2009, Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir og Magnús Þór Jónsson, Megas, fyrir Dag kvennanna – ástarsögu 2010, Sigríður Jónsdóttir fyrir ljóðasafnið Kanil 2011, Auður Ava Ólafsdóttir fyrir Undantekninguna 2012, Sjón fyrir Mánastein 2013, Soffía Bjarnadóttir fyrir Segulskekkju 2014 og Bergsveinn Birgisson fyrir Geirmundar sögu heljarskinns 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert