„Það hefur legið fyrir að það yrði erfitt að finna kaupendur að tveimur eða jafnvel þremur bönkum. Þarna er búið að finna kaupendur að hluta í einum. Í einhverjum skilningi er það skref í rétta átt,“ segir Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, um söluna á 30% hlut í Arion banka, í samtali við Rúv.
„Í einhverjum skilningi er þetta skref í rétta átt en svo má deila um það hvort þetta séu endilega þeir eigendur sem menn hefðu helst viljað sjá. En líklega er bara ekki um auðugan garð að gresja kaupendamegin.“
Hann tekur fram að erfitt sé að selja evrópska banka og að þeir gangi kaupum og sölum á verði sem sé talsvert undir eigin fé. Það þýði að seljendurnir séu ekkert endilega sérstaklega ánægðir með verðið sem þeir fái.
Gylfi telur að áður en 30% hlutinn í Arion banka var seldur hefði mátt setja almenna umgjörð um bankastarfsemi á Íslandi. „Það hafði kannski, á undan þessu skrefi, mátt reyna að setja upp umgjörð sem er almenn sátt um að verði grundvöllur bankastarfsemi á Íslandi á næstu áratugum. Það á bara eftir að taka ýmsar ákvarðanir á því sviði.“