Ólafur Helgi gaf blóð í 200. skipti

Ólafi Helga Kjartanssyni var afhent viðurkenning frá Blóðbankanum eftir 200. …
Ólafi Helga Kjartanssyni var afhent viðurkenning frá Blóðbankanum eftir 200. blóðgjöfina. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, náði þeim áfanga nú í morgun að gefa blóð í 200. skipti og er hann sá blóðgjafi sem oftast hefur gefið blóð hér á landi.

„Fyrst og fremst er ég ánægður að hafa haft heilsu til að gera þetta öll þessi ár og ná þessum áfanga og vona að þetta verði líka öðrum hvatning,“ sagði Ólafur Helgi í samtali við mbl.is eftir blóðgjöfina.

Ólafur Helgi gaf blóð í fyrsta sinn á síðasta ári sínu í Menntaskólanum í Reykjavík 19. mars 1972, þá 18 ára gamall. Síðan kom hlé á blóðgjöfum hjá honum í tvö ár og kveðst hann þess vegna líka vita hversu mikilvægt það sé að minna á blóðgjafir.

„Ég var í háskólanum og úti að vinna og hafði um nóg annað að hugsa og það minnti mig enginn á þetta,“ segir hann. Tilviljun réð því síðan að hann fór aftur með bróður sínum að gefa blóð og hefur frá þeim tíma gefið blóð á þriggja mánaða fresti, utan tíma þar sem hann var blóðflögugjafi og kom þá oftar í blóðskiljuvél.

Blóðgjafir eru Ólafi Helga mikið hjartans mál, enda var hann um árabil formaður Blóðgjafafélags Íslands, auk þess að vera stjórnarmaður í alþjóðlegum blóðgjafasamtökum. Þá hefur hann verið duglegur að hvetja aðra til að gefa blóð og segist fylginn sér í þessum efnum.

„Ég hef reynt að hvetja aðra,“ segir hann og telur eina helstu ástæðu þess að menn séu ekki að gefa blóð vera hugsunarleysi. „Síðan getur líka verið vandamál hjá fólki að fá frí í vinnu til að fara og gefa blóð og þess vegna þarf maður líka að hvetja atvinnurekendur til að hugsa um málstaðinn.“

Þó blóðgjafirnar séu nú orðnar 200 talsins er Ólafur Helgi hvergi nærri hættur. „Á meðan heilsan leyfir þá mun ég halda áfram,“ segir hann.

Ólafur hefur gefið blóð á þriggja mánaða fresti flest sín …
Ólafur hefur gefið blóð á þriggja mánaða fresti flest sín fullorðinsár. Hann hefur líka hvatt aðra til að gefa blóð. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert