150 ára saga Borgarness í gegnum linsuna

Fyrstu verslunarhúsin í Borgarnesi voru reist undir Suðurnesklettum á árunum …
Fyrstu verslunarhúsin í Borgarnesi voru reist undir Suðurnesklettum á árunum 1877-1878 af Jóni Jónssyni kaupmanni frá Ökrum á Mýrum. Þessi mynd er tekin um 1930 en þá var Verslunarfélag Borgarfjarðar undir stjórn Jóns Björnssonar frá Bæ með rekstur í húsunum, en þar rak fyrirtækið verslun og sláturhús. Hægra megin við verslunarhúsin sést sláturhús Sláturfélags Borgfirðinga við Brákarsund sem á þessum tíma var stýrt af Kaupfélagi Borgfirðinga. Húsið til hægri í forgrunni er hús Mjólkurfélagsins Mjallar sem var fyrirrennari Mjólkursamlags Borgfirðinga. Til vinstri sést kaupmannsheimilið Kaupangur, elsta húsið í Borgarnesi. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
„Við nutum Egils [Ólafssonar] eftir að hann var fallinn frá. Allt þetta fólk sem vildi koma að ritinu í minningu þessa góða drengs og gefa vinnu sína,“ segir Birna G. Konráðsdóttir, formaður ritnefndar Sögu Borgarness, í samtali við mbl.is vegna opnunar á ljósmyndasýningu í tengslum við 150 ára afmæli bæjarins. Segir hún velvild fólks gagnvart Agli hafa skipt miklu um að bókin kom út yfir höfuð og hvað þá á réttum tíma, en Egill féll skyndilega frá eftir að hafa unnið að ritinu í eitt ár.

Í dag eru 150 ár liðin síðan Borgarnes fékk kaupstaðarréttindi og var haldið upp á daginn með opnun ljósmyndasýningar í Safnahúsi Borgarfjarðar. Verða þar sýndar um 50 myndir sem spanna stærstan hluta þessara 150 ára. Myndirnar eru meðal þeirra sem söfnuðust saman þegar unnið var að því að setja saman sögu Borgarness, sem mun koma út í tveimur bindum í næsta mánuði, en þar verða í heild yfir 570 myndir auk þess sem farið verður í gegnum sögu bæjarins í heilmiklum texta sem Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson rituðu.

Birna segir í samtali við mbl.is að það sé í raun kraftaverk að bókin hafi komið út á áætluðum tíma, en Egill sem hafði tekið að sér verkið árið 2014 féll frá í byrjun árs 2015, þá í blóma lífs síns. Birna segir að frændi Egils hafi í framhaldinu verið ráðinn til að klára verkið, en hann hafði áður verið Agli innan handar. Báðir eru þeir sagnfræðingar og vildi Heiðar ólmur klára verkið sem Egill hafði byrjað á.

Verslun hófst í Englendingavík árið 1881. Frá 1888-1913 rak J.P.T. …
Verslun hófst í Englendingavík árið 1881. Frá 1888-1913 rak J.P.T. Bryde stórkaupmaður þar verslun en frá 1916-1959 var þar verslun og skrifstofur Kaupfélags Borgfirðinga. Hér er svipmynd frá víkinni á fjórða áratugnum. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Húsið Dalbrún (Gunnlaugsgata 16) er eitt elsta húsið í Borgarnesi. …
Húsið Dalbrún (Gunnlaugsgata 16) er eitt elsta húsið í Borgarnesi. Það var reist af Ólafi Guðmundssyni daglaunamanni og Guðfinnu Jónsdóttur húsmóður árið 1896. Myndin er tekin um 1910. Heimilisfólk og gestir standa fyrir framan húsið. Kartöflugrös eru í forgrunni. Lárus Gíslason/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar

„Það er alltaf erfitt að setja punkt

Fyrstu prufueintökin komu í ráðhúsið í Borgarnesi í síðustu viku og segir Birna að það hafi verið rosalega gaman að sjá þær koma í hús og Heiðar handfjatla þær eftir alla þessa vinnu. „Ég er gríðarlega þakklát að hafa fengið Heiðar til samstarfs, en þetta er líka eins konar kraftaverk að verkið hafi komið út í ljósi þessara aðstæðna,“ segir Birna glöð í bragði.

Bindin eru samtals um 900 blaðsíður og segir Birna að þó að um veglegt rit sé að ræða þá sé það þannig að þegar um þetta stórt tímabil sé að ræða verði mikið efni sem ekki komist fyrir í bókunum tveimur. „Það er alltaf erfitt að setja punkt. Það hefði auðveldlega verið hægt að skrifa miklu fleiri bindi,“ segir hún.

Egill Ólafsson réðst í gerð sögu Borgarness í janúar 2014. …
Egill Ólafsson réðst í gerð sögu Borgarness í janúar 2014. Hann féll frá fyrir aldur fram í janúar 2015, en Heiðar Lind Hansson, frændi Egils, kláraði verkið.
Árið 1930 batnaði öll hafnaraðstaða í Borgarnesi þegar Borgarneshöfn var …
Árið 1930 batnaði öll hafnaraðstaða í Borgarnesi þegar Borgarneshöfn var tekin í notkun í Stóru-Brákarey. Þar með var komin ásættanleg aðstaða fyrir flóasiglingar frá Reykjavík sem höfðu byrjað 1891. Hér er mynd frá höfninni á fjórða áratugnum, tekin af Friðriki Þorvaldssyni hafnarverði. Flóabáturinn Laxfoss siglir að bryggju á meðan fólksflutningabílar bíða tilbúnir á hafnarbakkanum. Laxfoss var gerður út af hf. Skallagrími sem var í eigu fyrirtækja og íbúa í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Tímabili fólksflutninga um Borgarneshöfn lauk árið 1966. Friðrik Þorvaldsson/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar

Birna segir ekki síður ánægjulegt að söguritunin hafi nánast komið út á pari við áætlanir sem upphaflega voru settar fram. Segir hún að það hafi ekki síst verið Agli að þakka og allri þeirri velvild sem hann naut meðal samferðamanna sinna og vina sem margir vildu gefa vinnu sína og tíma til að síðasta verk hans gæti klárast.

Sýnir vel styrkleika lítils samfélags

Nefnir hún að af þessum 570 myndum hafi aðeins þurft að greiða fyrir afnot af tíu þeirra. Notkun á öðrum myndum hafi fengist gefins og þá hafi ekkja Egils ritað nafnaskrá, aðrir sagnfræðingar komið að rituninni og mestallur prófarkalestur verið unninn af velgjörðarfólki. Þá hafi orðrómurinn um ritunina fljótlega borist um bæinn og margir komið með myndir og eldri borgarar viljað segja frá og fyllt upp í margar eyður sem átti eftir að loka. „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn, það kom heilt þorp að því að búa til þessa bók,“ segir Birna og bætir við að bókin sýni vel styrkleika þess litla samfélags sem Borgarnes sé.

Á fjórða áratugnum hóf Ungmennafélagið Skallagrímur ásamt Kvenfélagi Borgarness að …
Á fjórða áratugnum hóf Ungmennafélagið Skallagrímur ásamt Kvenfélagi Borgarness að rækta trjágarð í Skallagrímsdal undir forystu Friðriks Þorvaldssonar hafnarvarðar. Í lok áratugarins tók Kvenfélagið við keflinu og sá um ræktun garðsins fram eftir 20. öld. Garðurinn fékk heitið Skallagrímsgarður en í honum er haugur Skallagríms. Skallagrímsgarður er einn helsti samkomustaður Borgnesinga. Friðrik Þorvaldsson/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Slátrun og kjötvinnsla var lengi vel ein helsta stoð atvinnulífsins …
Slátrun og kjötvinnsla var lengi vel ein helsta stoð atvinnulífsins í Borgarnesi og um miðja síðustu öld voru þrjú sláturhús starfandi í bænum. Stórtækast í slátrun var Kaupfélag Borgfirðinga sem tók í notkun nýtt sláturhús í Brákarey árið 1966. Þar var innleidd ný sláturtækni sem átti uppruna sinn í Nýja-Sjálandi. Einar Ingimundarson/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar

Myndasýningin opnaði sem fyrr segir í dag, en Borgarnes fékk kaupstaðarréttindi 22. mars 1867. Samhliða sýningunni hófst forsala á ritinu, en formlegur útgáfudagur verður 29. apríl í Hjálmakletti í Menntaskólanum í Borgarnesi. Þá mun Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, verða afhent fyrsta eintak bókarinnar.

Frá Brákarpolli að Borgarfjarðarbrú

Fyrra bindi sögunnar ber nafnið Bærinn við Brákarpoll, en það vísar til þess að áður fyrr var mestallt umfang bæjarins í gamla miðbænum og allt athafnalífið við sundið. Seinna bindið heitir hins vegar Bærinn við brúna og vísar það til þess að eftir að Borgarfjarðarbrúin kom fluttist athafnalífið og verslunin sem hafði verið við pollinn upp á brú.

Tilkoma Borgarfjarðarbrúarinnar hafði mikil áhrif á Borgarnes og færði þjóðbraut …
Tilkoma Borgarfjarðarbrúarinnar hafði mikil áhrif á Borgarnes og færði þjóðbraut landsmanna í gegnum bæinn. Halldór E. Sigurðsson ráðherra, sem var sveitarstjóri í Borgarnesi á árunum 1955-1968, var eindreginn talsmaður þess að brúa Borgarfjörð og beitti sér fyrir málinu á Alþingi og í ríkisstjórn. Hér er nýbúið að fylla í síðasta haftið á fyllingu brúarinnar í lok áttunda áratugarins og tekur Halldór E. fyrstu gönguna yfir. Einar Ingimundarson/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
Leiklist hefur verið stunduð af krafti í Borgarnesi í tæpa …
Leiklist hefur verið stunduð af krafti í Borgarnesi í tæpa öld á vegum Ungmennafélagsins Skallagríms. Hér eru þátttakendur í verkinu Sláturhúsið hraðar hendur eftir Hilmi Jóhannesson mjólkurfræðing sem sett var á svið í Samkomuhúsinu við Gunnlaugsgötu árið 1968. Hilmir var jafnframt leikstjóri en geta má þess að félagar í Lionsklúbbi Borgarness komu einnig að þessari uppfærslu. Sitjandi f.v.: Þórður Magnússon, Þórhildur Loftsdóttir, Freyja Bjarnadóttir og Oddný Kristín Þorkelsdóttir. Standandi f.v.: Halldór Sigurbjörnsson, Eyvindur Ásmundsson, Jón Kr. Guðmundsson, Geir K. Björnsson, Friðjón Sveinbjörnsson, Jón Þ. Björnsson og Hilmir Jóhannesson, höfundur og leikstjóri. Einar Ingimundarson/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar

Hugað er að fjölmörgum smáatriðum í ritinu og eru þannig kaflaheiti bókarinnar í svokölluðum Sæmundarbláum, en það er sami litur og Sæmundur Sigmundsson sérleyfishafi notaði á sérleyfisbíla sína í áratugi. Kápa bókarinnar er þá í sama græna lit og er litur íþróttaliðsins Skallagríms.

Auk Birnu sitja í ritnefnd þau Bergur Þorgeirsson, Sóley B. Sigurþórsdóttir og Theodór Kr. Þórðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert