Guðni fundaði með Ernu Solberg

Vel fór á með Guðna og Haraldi Noregskonungi í norsku …
Vel fór á með Guðna og Haraldi Noregskonungi í norsku konungshöllinni í gær. AFP

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, átti í gær fund með Marit Nybakk, varaforseta norska stórþingsins í Ósló.

Á fundinum var meðal annars rætt um samskipti landanna og samstarf, svo sem á vettvangi löggjafar og utanríkismála. Fundinn sátu einnig Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og embættismenn, að því er kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Í dag átti forsetinn fund með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs. Þau ræddu um samleið landanna í ýmsum hagsmunamálum, þróun alþjóðamála og varnarmál. Utanríkisráðherra Íslands tók einnig þátt í fundinum auk annarra fulltrúa Íslands.

Fundirnir tveir eru þáttur í ríkisheimsókn forsetans til Noregs, sem stendur yfir frá 21. til 23. mars.

Meðal annarra dagskrárliða í heimsókninni má nefna að fyrsta dag hennar lagði forseti blómsveit að minnismerki um þá sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni og einnig sat hann hátíðarkvöldverð í boði konungshjónanna í konungshöllinni.

Í dag mun forseti Íslands skoða nýsköpunarmiðstöð í vísindagarði Óslóar, auk þess sem hann situr hádegisverð í borði norsku ríkisstjórnarinnar í Akerhusvirk.

Forsetinn hittir Íslendinga sem búa í Noregi og tekur þátt í athöfn þar sem Íslendingar færa Norðmönnum að gjöf Íslendingasögur í norskri þýðingu sem ráðgert er að dreifa til bókasafna víða um landið.

Síðdegis efnir forsetinn til móttöku til heiðurs Haraldi Noregskonungi og Sonju drottningu en að því búnu heldur hann ásamt fylgdarliði til Björgvinjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert