Ekki gert ráð fyrir tveimur mömmum

Grunnskólanemar á góðri stundu. Almar ætlar að benda á þær …
Grunnskólanemar á góðri stundu. Almar ætlar að benda á þær athugasemdir sem hafa borist vegna PISA-prófsins á næsta verkefnastjórafundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unglingar sem eiga tvær mömmur eða tvo pabba áttu erfitt með að svara spurningum í forprófi PISA-prófsins á dögunum þar sem spurt var út í fjölskylduhagi, þar á meðal menntun og störf mömmu og pabba.

Almar M. Halldórsson, verkefnastjóri PISA-prófsins, hefur ekki áður orðið var við kvartanir vegna þessara spurninga en ætlar að taka málið upp á verkefnastjórafundi sem verður haldinn erlendis í nóvember.

„Ég mun benda á að það eru nokkuð margir nemendur að lenda í þessu hér. Það er spurning hvort það sé ekki hægt að orða þetta öðruvísi og tala kannski um foreldri eitt og tvö. Það eru eflaust margar leiðir til,“ segir Almar.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novators, vakti athygli á þessu í Facebook-færslu sinni:

Fylgt prófinu frá upphafi

Spurningarnar um fjölskylduhagi sem eru lagðar fyrir nemendur hér á landi hafa fylgt PISA-prófinu frá upphafi , að sögn Almars, og eru þær til grundvallar á mati á þjóðfélagslegri stöðu, enda er í mörgum löndum ójöfnuður í menntunartækifærum barna eftir stöðu. „Það er verið að kanna hversu mikill sá ójöfnuður er til að reyna að sporna gegn því. En við þýðum þá spurningalista sem er verið að keyra í þessum löndum. Við höfum ekkert val um það hvernig við spyrjum.“

Hann ætlar að koma athugasemdum vegna spurninganna um fjölskylduhagi áleiðis til þeirra sem stýra verkefninu erlendis. „Þeir verða að taka afstöðu til þess hvernig er hægt að leysa þetta. Við vonum að þeir geri það.“

Almar M. Halldórsson, verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun.
Almar M. Halldórsson, verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun. mbl.is/Eyþór Árnason

Rúna af vankanta

Þangað til OECD, sem stýrir rannsókninni, ákveður að breyta spurningunum verða þær eins hér á landi. „Við höfum ekkert vald yfir því hvað er í þessu prófi eða spurningalistum en við getum komið áleiðis þessum athugasemdum.“

Aðalprófið í PISA-rannsókninni verður haldið á sama tíma á næsta ári. Forprófinu sem núna var haldið er ætlað að rúna af alla vankanta. Því er hugsanlegt að breyting verði gerð á spurningunum um fjölskylduhagi fyrir næsta aðalpróf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert