Ekki í lagi að vera eina konan á fundum

Regína Ásvaldsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi og Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri …
Regína Ásvaldsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi og Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Núverandi og fyrrverandi kvenkyns bæjarstjórar sem mbl.is ræddi við í dag eru sammála um að hlutfall kvenna í stöðum sveitar- og bæjarstjóra eigi að vera miklu hærra og hvetja þær konur til að gefa kost á sér. Í dag er aðeins 16 sveitarfélögum af 74 stjórnað af konum. 

Fyrr­ver­andi bæj­ar­stjóri Akra­ness, Regína Ásvalds­dótt­ir, seg­ir hlut­fall kvenna í sveit­ar- og bæj­ar­stjóra­stöðum of lágt. Hún seg­ir að gott væri ef hlutfallið væri sem jafnast.

„Ég tók sér­stak­lega eft­ir þessu eft­ir kosn­ing­arn­ar 2014. Við hitt­umst reglu­lega bæj­ar­stjór­arn­ir og þá sá ég að kon­um í hópn­um hafði fækkað veru­lega,“ seg­ir Regína í sam­tali við mbl.is en hún hætti sem bæj­ar­stjóri Akra­ness fyrr í mánuðinum og stýr­ir nú vel­ferðarsviði Reykja­vík­ur­borg­ar.

Regína tel­ur að Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga ætti að vakta kynja­hlut­fall sveit­ar­- og bæjarstjóra og jafn­vel standa fyrir ein­hvers­kon­ar átaki fyr­ir næstu kosn­ing­ar. „Þetta nátt­úru­lega ger­ist í kosn­ing­un­um. Bæj­ar- og sveit­ar­stjór­ar eru ým­ist póli­tískt kjörn­ir eða ráðnir og því er mjög mik­il­vægt að taka þetta inn í umræðuna.“

Hún bend­ir á að kon­um hafi fjölgað mjög í sveit­ar­stjórn­um, rétt eins og í stjórn­um fyr­ir­tækja. „En það virðist vera eitt­hvað glerþak sem ger­ir það að verk­um að kon­ur fara síður í for­stjóra­störf­in og það sama má segja um bæj­ar- og sveit­ar­stjóra­stöður sem eru yf­ir­leitt eft­ir­sótt­ustu stöðurn­ar í tengsl­um við sveit­ar­stjórn­irn­ar,“ segir Regína. 

Af tíu stærstu sveit­ar­fé­lög­um lands­ins er aðeins einu þeirra stjórnað af konu þrátt fyr­ir að stærsti hluti starfs­manna sveit­ar­fé­lag­anna séu kven­kyns. 

Regína var bæj­ar­stjóri á Akra­nesi í rúm 4 ár en er nú eins og fyrr seg­ir yfir vel­ferðarsviði Reykja­vík­ur­borg­ar þar sem 2.500 manns starfa. „Hér erum við að fást við þver­öfug­ar aðstæður. Við erum að reyna að laða karla að störf­un­um hér, bæði al­mennu störf­in og í stjórn­un­ar­stöður,“ seg­ir Regína.

Aðspurð hvað hún telji ásætt­an­legt hlut­fall kvenna í stöðum sveit­ar- og bæj­ar­stjóra seg­ir Regína að það ætti að vera sem jafnast. Regína seg­ist út­frá sinni reynslu bæj­ar­stjóra­starfið henta kon­um al­gjör­lega jafn vel og körl­um. „Þetta er mjög skemmtilegt starf þar sem verið er að fást við fjölbreytta málaflokka og ég vil hvetja kon­ur til að sækj­ast eft­ir þess­um störfum.“

Bæjarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en eins og glöggir taka eftir …
Bæjarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en eins og glöggir taka eftir er Ásgerður eina konan. Frá vinstri, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Ásgerður og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Af heimasíðu SSH

Eini kvenkyns bæjarstjórinn á höfuðborgarsvæðinu

Ásgerður Halldórsdóttir hefur verið bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar í tæp átta ár. Hún segir hlutfall kvenna í stöðum sveitar- og bæjarstjóra engan veginn nógu hátt. „Maður hefur ekki verið að sjá margar nýjar konur,“ segir Ásgerður í samtali við mbl.is og bætir við að að hennar mati ætti helmingur sveita- og bæjarstjóra að vera kvenkyns.

Ásgerður segir tölfræðina sýna að það þurfi fleiri konur í sveitarstjórnir, ekki aðeins í stöður sveitar- og bæjarstjóra. Ítrekar hún mikilvægi þess að konur gefi kost á sér og taki virkan þátt. „Þær sem starfa innan sveitarstjórnar, hvort sem það er í nefndum eða sérverkefnum ættu endilega að skoða hvort þær hafi ekki áhuga á að fara í sveitarstjórnir og jafnvel gefa kost á sér í oddvita.“

Hún bendir á að nú séu fleiri konur háskólamenntaðar en karlar og eru þær til dæmis að mennta sig í opinberri stjórnsýslu og félagsmálum. „Að stýra sveitarfélagi er fjölbreytt starf og snýr að stórum hluta að skólamálum og velferðarsviðinu. En það eru einhvern veginn þær sem eru að mennta sig í þessu en gefa síður kost á sér.“

Af 74 sveitar- og bæjarstjórum hér á landi eru aðeins 16 konur og er Ásgerður eini kvenkyns bæjarstjórinn á höfuðborgarsvæðinu. „Við hittumst stundum á fundum og þá er ég eina konan. Það er ekki í lagi. Nú eru þeir allir góðir leiðtogar fyrir sín sveitarfélög en umræðan þarf að vera meiri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert