Erum við að fara í sama farið?

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs.
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Frá því að ég var kosin formaður Viðskiptaráðs hef ég verið að leggja áherslu á fjölbreytileika,“ segir Katrín Olga Jóhannesdóttir í samtali við mbl.is. Hún hefur birt níu örfærslur um fjölbreytileika á Facebook síðustu daga og segir ærna ástæðu til.

„Ég hef talað um fjölbreytileika og datt í hug að setja nokkra mola á Facebook til að vekja frekari athygli á þessu. Mér finnst skorta á þetta í okkar þjóðfélagi en nýjasta nýtt er stjórn SVÞ. Mér finnst það með eindæmdum að horfa upp á þá samsetningu,“ segir Katrín en í nýkjörinni stjórn Samtaka verslunar og þjónustu eru sex karlar og ein kona.

Katrín segir að fjölbreytileiki skipti máli til að auka víðsýni og bæta samfélagið. „Bæði held ég að það bæti okkur, samfélagslega séð og einnig eykur þetta hagsæld en menn gleyma stundum að horfa á það,“ segir Katrín en einsleitnin hræðir hana og hún bendir á árin fyrir hrun máli sínu til stuðnings.

„Við vitum hvað gerðist árin 2005-2007 þegar við vorum öll steypt í sama form. Þá skorti gagnrýna hugsun og meiri vídd í umræðuna.“

Katrín telur að ástandið hafi skánað um tíma en telur að bakslag hafi orðið. „Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég skrifaði þessa punkta. Mér finnst við aðeins vera að detta í sama farið.“

Hún segir nærtækt dæmi um einsleitni vera áðurnefnda stjórn SVÞ. „Mér finnst við líka vera komin í sama partíið í fjármálageiranum og það er svolítið einsleitur hópur eins og Kjarninn benti á um daginn. Ég hef áhyggjur af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert