Hundurinn baðaði vankaðan fuglinn

Fuglinn og hundurinn voru mestu mátar.
Fuglinn og hundurinn voru mestu mátar. Ljósmynd/Gunnar Kr. Sigurjónsson

„Ég sat við tölvuna og hafði opnað út á svalir þegar hundurinn minn, hann Tígull, kom vælandi til mín og hætti ekki fyrr en ég elti hann þangað.“ Þannig hefst frásögn Gunnars Kr. Sigurjónssonar en Tígull var að reyna að benda eiganda sínum á að á svölunum væri lítill fugl.

Gunnar segir að þar hafi auðnutittlingur legið hreyfingarlaus á svalagólfinu. Hann náði í bréfakörfu með neti á hliðunum og setti varlega yfir fuglinn sem haggaðist ekki. „Ég hélt þá að hann væri dauður, en þá flögraði hann upp og settist innan í netkörfuna. Ég tók hann inn og gaf honum smá korn og vatn og innan skamms var hann farinn að tísta aðeins, svo ég sleppti honum lausum.“

Gunnar setti fuglinn síðan í lófann og tók nokkrar myndir þar sem hundurinn þefaði af honum. „Fuglinn flaug síðan stóran hring í stofunni og sest beint á hausinn á hundinum. Síðan fórum við með hann út á svalir, en ekki fyrr en Tígull hafði baðað hann aðeins,“ segir Gunnar.

Gunnar setti fuglinn á svalahandriðið og fór inn. Hann leit á fuglinn um klukkutíma síðar, sem var þá á nákvæmlega sama stað en hafði flogið heilan hring í stofunni áður þannig að Gunnar var viss um að hann gæti flogið.

Hundurinn var mjög forvitinn.
Hundurinn var mjög forvitinn. Ljósmynd/Gunnar Kr. Sigurjónsson

Þarna var orðið ansi kalt og ég tók hann inn aftur og hann var í körfunni í nótt. Ég þurfti að fara á fund í morgun og þegar ég kom aftur í hádeginu sá ég að þetta var allt annar fugl en ég var með í höndunum í gær. Hann var var um sig og þegar ég lyfti körfunni af honum þá flaug hann um leið,“ segir Gunnar sem telur líklegt að fuglinn hafi verið vankaður í gærkvöldi.

Ég sleppti honum lausum í hádeginu og var ánægður að hann hafi fengið nóttina til að jafna sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert