Segist ekki hafa brotið gegn siðareglum

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari.

„Ég vísa þessu alfarið á bug,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, um mat Lögmannafélags Íslands að hann hafi brotið gegn siðareglum lögmanna með tölvupóstsendingum sínum til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Rúv greindi fyrst frá málinu. 

Lögmannafélagið vísaði málinu til úrskurðarnefndar lögmanna. Jón Steinar gerði grein fyrir máli sínu fyrir úrskurðanefndinni í dag. Hann krefst þess að málinu verði vísað frá og til vara að erindi stjórnar Lögmannafélagsins verði hafnað.  

Segir stjórn Lögmannafélagsins hafa gert mistök

„Ég held að stjórnin [Lögmannafélagsins] hafi gert mistök,“ segir Jón Steinar. Hann bendir á að Lögmannafélagið hafi tekið málið upp á sitt einsdæmi og farið með það til úrskurðarnefndar. Dómstjórinn kærði ekki sjálfur Jón Steinar heldur lagði fram kvörtun til Lögmannafélagsins.

Jón Steinar bendir á að samkvæmt lögum Lögmannafélagsins getur sá sem vill kvarta yfir háttsemi lögmanns borið upp mál sitt við úrskurðarnefndina. Stjórn Lögmannafélagsins getur ekki tekið mál upp á sitt einsdæmi. 

Synjað um flýtimeðferð

Málið snýst um að Jón Steinar óskaði eftir flýtimeðferð á máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann lagði fyrir dómstjórann stefnuna auk lista yfir skjöl málsins og bað dómstjórann um að hafa samband við sig ef hann þyrfti frekari gögn til að taka afstöðu til flýtimeðferðarinnar.

„Hann afgreiðir erindið á þeirri forsendu að engin skjöl hafi fylgt með og lét þess ekki getið að honum hefði staðið þau öll til boða. Ég skil það ekki. Kannski var hann að flýta sér og vildi komast í frí,“ segir Jón Steinar. 

Eftir það áttu sér stað orðaskipti milli þeirra tveggja sem drógu dilk á eftir sér.    
 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert