Sigurður Ingi og Bjarni tókust á

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag að það væri athyglisvert að Bjarni Benediktsson hefði fagnað þeim tíðindum að vogunarsjóðir hefðu verið hluti kaupenda í 30% hlut í Arion banka.

Pét­ur Ein­ars­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Straums, sagði í viðtali við Morgunblaðið að vogunarsjóðir væru í eðli sínu lokaðir klúbbar sem væru ekki eft­ir­lits­skyld­ir eins og bank­ar. Þeirra eign­ar­hald og starf­semi sé ekki op­in­ber,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann spurði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hvort hann væri sammála fyrrverandi forstjóra Straums um að vogunarsjóðir séu óheppilegir. „Er þetta gert til að auka traust almennings á bankakerfinu? Er það siðferðislega verjandi að einn af sjóðunum hafi þurft að greiða háar bæt­ur vegna aðkomu að spill­ing­ar­mál­um og hafi verið settur í ruslflokk daginn eftir kaup á hlut í Arion-banka?“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efni í lengri umræðu

Bjarni sagði þetta efni í lengri umræðu en tók það fram að íslenska ríkið hafi ekki verið að selja banka. „Íslenska ríkið gekk þannig frá við slitabú gamla Kaupþings að þeir afhentu íslenska ríkinu skuldabréf upp á 84 milljarða króna. Við vildum ekki að allir þessir fjármunir myndu renna út úr hagkerfinu, til kröfuhafanna með áfalli fyrir íslensku krónuna,“ sagði Bjarni.

Hann sagðist hafa viljað fagna í upphafi viku því skrefi að það horfi til þess í fyrsta skipti frá hruni að nú fáist banki með framtíðareignarhald. „Hér er beint til mín spurningu hvort ég sé sáttur við einstaka eigendur,“ sagði Bjarni og bætti því við að það væri alrangt að hann hefði fagnað því að einhverjir ákveðnir aðilar hefðu gerst kjölfestufjárfestar.

„Það eru þeir sem eru komnir yfir 10% og þeir munu þurfa að fara í gegnum nálarauga Fjármálaeftirlitsins,“ sagði Bjarni.

Eru ekki allir fjármunir á leið úr landi?

Sigurður Ingi spurði Bjarna þá hvort allir fjármunir væru ekki á leið úr landi. „Er það trúverðugt að slíkir aðilar hafi farið í svona stóra fjárfestingu á mikilvægri stofnun án þess að hafa til þess tiltekið samþykki stjórnvalda?“

Hann vitnaði í orð eins kaupanda: „Ástæða þess að við takmörkuðum eignahlut okkar við 9,99% var að við vildum ekki tefja söluferlið. Það var mikilvægt fyrir Kaupþing og einnig eitthvað sem yfirvöld litu jákvæðum augum, sagði Sigurður Ingi og spurði hvaða yfirvöld litu það jákvæðum augum.

Snilldin í samningum síðustu ríkisstjórnar

Það er misskilningur í gangi að það séu meiri fjármunir að fara úr landi, þetta er einmitt öfugt,“ sagði Bjarni. „Það eru að koma nýir fjármunir inn sem losa um veð. Þetta er snilldin í þeim samningum sem síðasta ríkisstjórn gerði. Menn komast ekki undan þessu, menn komast ekki undan skilyrðunum sem við settum,“ bætti Bjarni við.

Ég veit ekki hvað er verið að vísa í þegar sagt er að einhver stjórnvöld hafi litið það jákvæðum augum að þessi leið yrði farin. Hitt er hins vegar alveg skýrt að við erum með lög í þessu landi sem kveða á um það að vilji menn fara með tiltekinn stóran eignarhlut þá þurfi menn blessun Fjármálaeftirlitsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert