Stöðvuðu kannabisræktun í Þingahverfi

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði fíkniefnaræktun í Þingahverfinu í Kópavoginum um sexleytið í gær. Um það bil 50 kannabisplöntur og áhöld sem nýtt voru til ræktunarinnar voru gerð upptæk í heimsókn lögreglu, sem einnig fann önnur fíkniefni á vettvangi.

Kvöldið var hins vegar tíðindalítið að því er fram kemur í dagbók lögreglu, fimm ökumenn voru þó stöðvaðir víðs vegar í borginni vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Einn þeirra ökumanna var stöðvaður í Breiðholtinu og hafði sá aldrei öðlast ökuréttindi. Hann var enn fremur grunaður um að aka bílnum undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna.  Ástandi bifreiðarinnar var sömuleiðis mjög áfátt og voru skráningarmerki klippt af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert