Trans-Atlantic Aviation dæmt til að greiða sænskum sérfræðing 22 milljónir

Lidman vann að samningagerð við Tassili Airlines.
Lidman vann að samningagerð við Tassili Airlines. Wikipedia/Lbchy

Flugrekstarfélagið Trans-Atlantic Aviation ehf. hefur verið dæmt til að greiða sænska félaginu Aeropol AB 189.089 evrur, jafnvirði 22,6 milljóna króna, vegna vinnu Anders Lidman, alþjóðlegs sérfræðings á sviði flugréttar.

Aeropol AB er félag um starfsemi Lidman en hann beindi kröfum sínum gegn Trans-Atlantic Aviation ehf. og ferðaskrifstofunni Trans-Atlantic ehf. vegna vinnu við samningagerð við alsírska flugfélagið Tassili Airlines vegna flugsamstarfs.

Trans-Atlantic ehf. var sýknað af kröfu Aeropol AB.

Samkvæmt dómi héraðsdóms Reykjavíkur voru málsatvik þannig að vorið 2014 hafði Egill Örn Arnarsson Hansen, stjórnarformaður Trans-Atlantic ehf. og framkvæmdastjóri Trans-Atlantic Aviation ehf., samband við Lidman um aðstoð við að koma á samstarfi við Tassili Airlines.

Svo virðist sem ekkert formlegt samkomulag hafi verið gert milli íslensku félaganna og þess sænska en óumdeilt er að Lidman innti af hendi umtalsverða vinnu í þágu verkefnisins.

Samkvæmt kröfu Aeropol AB stóð upphaflega til að félagið fengi, gegn vinnu Lidman, 15% eign í Trans-Atlantic Aviaton eða félagi þess í Alsír. Að hálfu stefndu var þó vísað til þess að þótt staðið hefði til að Aeropol fengi ótiltekin hlut hefði það verið gagnkvæmur skilningur að vinnan væri árángurstengd.

Hvað varðar hið áformaða samstarf aðila við Tassili Airlines í Alsír þá áttu sér stað umfangsmiklar viðræður aðila með það fyrir augum að gera samkomulag. Ber málsaðilum þó ekki fyllilega saman um hvert hafi verið hlutverk eða framlag stefnanda í tengslum við þá samningsgerð eða þá vinnu sem átti sér stað í kjölfarið. Stefnandi lítur svo á að hann hafi annast um samningsgerð og séð um gerð skjala fyrir stefndu auk þess að sjá um breytingar, yfirlestur og viðræður um efni þeirra. Af hálfu stefndu er því hins vegar lýst að stefnandi hafi einkum tekið að sér að þýða einstök skjöl sem gengið hafi á milli samningsaðila, það er af ensku yfir á frönsku og öfugt, sem og að svara fyrirspurnum forsvarsmanna Trans-Atlantic Aviation ehf.,“ segir í dóminum.

Þegar vinna við samstarfsverkefnið var á lokametrunum fyrir jól 2014 fékk Lidman þau skilaboð að ákveðið hefði verið að hann fengi ekki hluti í félaginu í samræmi við það sem hafði verið ráðgert. Öðrum aðilum hefði verið lofað auknum hlut og hlutur hans yrði því 3-4%.

Samningar við Tassili Airlines komust á í mars 2015.

Þann 6. mars 2015 sendi Anders Lidman síðan tölvupóst til Egils Arnar Arnarssonar Hansen og óskaði eftir því að fá fréttir af þróun mála í ljósi þess að hann hafi átt að verða hluthafi í félaginu um verkefnið í Alsír. Var honum svaraði daginn eftir af Agli Erni og kom þar fram að ekki myndi koma til þess að stefnandi fengi eignarhlut í meðstefnda en þess í stað myndi meðstefndi greiða sanngjarna þóknun fyrir veitta þjónustu hans líkt og um utanaðkomandi ráðgjafa væri að ræða. Kom þá einnig fram að meðstefndi myndi greiða stefnanda byggt á unnum tímum,“ segir í dóminum.

Stefndu byggðu varnir sínar m.a. á því að stefnandi hefði ekki lagt fram eitt einasta skjal, umboð eða verksamning sem sýndi fram á að milli stefnanda og stefndu hefði tekist samningur um þjónustu Anders Lidman.

Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að fyrir lægi ítarlega sundurliðuð tímaskýrsla Lidman, auk útskýringa á þeim taxta sem hún byggði á, og þá væri Lidman óumdeilt alþjóðlegur sérfræðingur á sviði flugréttar.

Enn fremur hefur stefnandi lagt fram umfangsmikil gögn um samskipti aðila og samnings- drög og önnur skjöl sem gefa til kynna umfang vinnu hans. Verður þrátt fyrir almenn andmæli af hálfu meðstefnda að leggja þessi gögn hér alfarið til grundvallar, enda hafa af hálfu meðstefnda ekki verið færð fram haldbær efnisleg gagnrök eða andmæli við einstökum liðum í tímaskýrslu stefnanda, auk þess sem tímataxti hans miðar við að um sé að ræða alþjóðlegan sérfræðing á sviði flugréttar, sem hann óumdeilt telst vera.“

Dómur héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert