Ursus ehf. tapaði í Hæstarétti

Heiðar Guðjónsson höfðaði skaðabótamál gegn Seðlabanka Íslands. Þessi mynd var …
Heiðar Guðjónsson höfðaði skaðabótamál gegn Seðlabanka Íslands. Þessi mynd var tekin þegar aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. mbl.is/Eggert

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Seðlabanki Íslands og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. voru sýknuð af tæplega tveggja milljarða króna kröfu félagsins Ursus ehf. sem er í eigu fjárfestisins Heiðars Guðjónssonar.

Ursus krafðist upphæðarinnar í skaðabætur vegna kæru bankans til sérstaks saksóknara árið 2010 á meðan Ursus ætlaði að kaupa ráðandi hlut í tryggingafélaginu Sjóvá. Þau kaup gengu ekki eftir.

Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti var talið að Ursus ehf. hefði ekki tekist að sanna að þeir sem komið hefðu að samkomulaginu fyrir hönd Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. hefðu haft umboð til þess að rita undir endanlegan kaupsamning um sölu hlutanna.

Þá var litið svo á að Ursus ehf. hefði af fúsum og frjálsum vilja tekið ákvörðun um að segja sig frá söluferlinu áður en bindandi kaupsamningur var gerður.

Því var ekki fallist á með Ursus ehf. að Seðlabanki Íslands og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. hefðu sammælst um að standa ekki við samkomulagið.

Ursus ehf. áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar 7. júní á síðasta ári.

Í dómi Hæstaréttar var Ursus gert að greiða Seðlabanka Íslands og Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. hvorum um sig samtals tvær milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert