„Á endanum færðu marblett“

„Við vitum alveg að fjölskyldur eru fjölbreyttari en það en …
„Við vitum alveg að fjölskyldur eru fjölbreyttari en það en ég veit ekki alveg hvað þarf til að við förum að átta okkur á því að það er ljótt að gera ekk ráð fyrir fjölbreytileikanum,“ segir Helga. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Þetta er bara enn einn birtingarmynd um að við erum ekki komin eins langt og við höldum,“ segir Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, framkvæmdastjóri Samtakanna´78, í samtali við mbl.is.

Í gær sagði mbl.is frá því að ung­ling­ar sem eiga tvær mömm­ur eða tvo pabba áttu erfitt með að svara spurn­ing­um í for­prófi PISA-prófs­ins á dög­un­um, þar sem spurt var út í fjöl­skyldu­hagi, þar á meðal um mennt­un og störf „mömmu og pabba.“ Segir Helga að um sé að ræða klassískt dæmi sem Samtökin verði oft vör við.

Vandamál sem þessi eru jafnan ekki talin alvarleg af þeim sem njóta forréttindastöðu að sögn Helgu en fyrir hinsegin fólk og fjölskyldur þeirra, sem upplifa ítrekað tilfelli sem þessi, geti þetta reynst erfitt. „Eitt og eitt skipti er kannski ekkert hræðilegt, en þegar þú lendir ítrekað í þessu að þá verður þetta svo kerfislægt og það getur verið svo lýjandi,“ útskýrir Helga.

Vont þegar potað er í marblettinn

Þetta fyrirbæri sem um ræðir er að sögn Helgu kallað öráreitni (e. micro aggression). Eitthvað sem sé svo pínu lítið, en síendurtekið verður það smátt og smátt meira íþyngjandi. „Svolítið eins og sé verið að pota í öxlina á þér,“ útskýrir Helga. „Það er ekkert hræðilegt einu sinni, en ef það er verið að pota mörgum sinnum á dag, á hverjum einasta degi, þá á endanum færðu marblett.“

Þegar einstaklingur sé svo kominn með marblett þá sé vissulega vont þegar potað er áfram í blettinn. „Þannig að þetta vindur upp á sig.“

Fleiri sambærileg dæmi þekkist víða í samfélaginu, til að mynda á hinum og þessum stöðluðu eyðublöðum og nefnir Helga fæðingar barna sérstaklega sem dæmi. „Þá er alltaf gert ráð fyrir að það sé karl og kona […] við vitum alveg að fjölskyldur eru fjölbreyttari en það en ég veit ekki alveg hvað þarf til að við förum að átta okkur á því að það er ljótt að gera ekki ráð fyrir fjölbreytileikanum,“ segir Helga.

Þykir ekki nógu alvarlegt til að laga

Hún segir samtökin ítrekað hafa bent á vandamál sem þessi en einhverra hluta vegna hafi það ekki verið lagað, þrátt fyrir að svo virðist sem það ætti ekki að vera flókið í framkvæmd. Til að mynda þegar börn fæðist með hjálp tæknifrjóvgunar, sé sambýlismaður móður sjálfkrafa skráður sem faðir barnsins í Þjóðskrá. Aftur á móti sé sagan önnur ef tvær konur, sem skráðar eru í sambúð, eignast barn með hjálp tæknifrjóvgunar.

En hvers vegna er svo flókið að útrýma vandamálinu?

„Ég held að það sé einhvern veginn ekki litið á þetta sem alvarlegt,“ svarar Helga. „Svolítið eins og við séum að gera rosalega miklar kröfur. En ég held að ef fólk kynnir sér málin almennilega, hlusti á reynslu fólks sem er ítrekað að lenda í þessu, að þá sjái það allir að auðvitað breytum við bara þessum eyðublöðum,“ segir Helga að lokum. „Það þarf svolítið meiri vitundarvakningu um að þetta sé alvarlegt og að þetta sé form af mismunun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert