Hálka og stórhríð á Hellisheiði

Búist er við stormi á landinu.
Búist er við stormi á landinu. Ómar Óskarsson

Hálka og stórhríð er á Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum. Hálkublettir og éljagangur eru á Reykjanesbraut og mjög víða á Suðurlandi. Þetta kemur fram á vefsíðu Vegagerðarinnar

„Á Vesturlandi eru hálkublettir á fjallvegum á Snæfellsnesi en hálka á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Á Vestfjörðum er þungfært á Steingrímsfjarðarheiði og þæfingur á Þröskuldum, hálka á öðrum fjallvegum og hálkublettir eru á láglendi,“ segir jafnframt á vefsíðunni.

Búist er við stormi, meðalvindi meira en 20 m/s á landinu, segir á vef Veðurstofu Íslands. Fram á morgundag er búist við storméljum á vesturhelmingi landsins. Dregur heldur úr vindi kringum hádegi, en gengur í sunnanhvassviðri eða -storm seint á morgun með rigningu og hlýnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert