Langþráður draumur að rætast

Öllu verður tjaldað til á risatónleikum Páls Óskars í haust.
Öllu verður tjaldað til á risatónleikum Páls Óskars í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Poppstjarna Íslands, eins og hann er gjarnan kallaður, Páll Óskar, stendur í stórræðum þessi misserin. Hann er á kafi í skipulagningu á risatónleikum sem haldnir verða í Laugardalshöll í haust. Hann var sömuleiðis ráðinn nýlega til Borgarleikhússins til þess að túlka hlutverk dr. Frank N Furter í söngleiknum Rocky Horror. Þá var hann að gefa út nýtt lag ásamt vinsælu lagahöfundunum í StopWaitGo. Við náðum í skottið á Palla þegar hann var í þann mund að ganga inn á sýninguna um söngkonuna Ellý Vilhjálms í Borgarleikhúsinu og fengum hann til að spjalla um verkefnin framundan.

Bráðnaði þegar hann heyrði lagið í fyrsta skipti

Palli sendi á dögunum frá sér lagið Einn dans sem hann gerir ásamt StopWaitGo en þeir eru án efa með vinsælustu tónlistarmönnum landsins um þessar mundir.

„Ég hitti strákana í SWG á fundi fyrir einu og hálfu ári síðan og við ræddum saman um tónlist, ég leyfði þeim að heyra demóin mín og ég heyrði demóin þeirra. Það lá því alltaf fyrir að það væri tímaspursmál hvenær við myndum telja í og vinna saman svona eins og eitt lag. Hinsvegar kom rétta lagið fyrir mig ekki fyrr en núna. Ég fékk að heyra demóið rétt fyrir áramót og ég bráðnaði strax þegar ég heyrði laglínuna,“ segir Palli en lagið hefur hlotið góðar viðtökur, bæði í útvarpi og á netinu.

„Ég skammast mín ekkert fyrir að segja þetta, ég er með mitt eigið lag á heilanum! Ég er með það á repeat á Spotify.“

Lagið upptaktur að risatónleikum

Næsta haust stefnir Páll að því að halda risatónleika í Laugardalshöll og markar lagið einskonar upptakt að tónleikunum. „Þetta er stærsta verkefni sem ég hef ráðist í frá upphafi. Sena Live bauð mér að halda ferilstónleika þar sem ég fer yfir líf mitt,“ segir Palli.

Öllu verður til tjaldað á tónleikunum og lofar hann sýningu án hliðstæðu hér á landi.

„Tilgangurinn með þessum tónleikum er að kanna hvort hægt sé að halda risatónleika í anda Beyonce og Justin Timberlake, nema bara ekki með þeim, heldur einungis íslensku starfsfólki,“ segir Palli og bætir við að leit að dönsurum hafi farið fram í janúar og að æfingar séu hafnar með þeim. Jafnframt sé vinna við sérstaka hljóðmynd að klárast og hljómsveitin sem mun spila með hljóðmyndinni byrjar að æfa í ágúst.

„Við erum að fara að prufukeyra ýmis tæknitrikk sem hafa ekki sést áður á Íslandi, þetta verða gríðarlega flóknir tónleikar tæknilega séð,“ segir Palli og er sammála blaðamanni þegar hann spyr hvort þessir tónleikar séu ekki hálfgerðar æfingabúðir fyrir alla þá sem starfa að þeim. „Sena Live er gjörsamlega að leyfa okkur að fríka út. Það er valinn maður í hverju horni og það eru allir að springa úr sköpun,“ segir Palli.

Palli ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.
Palli ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Miðasala á tónleika hefst í næsta mánuði, þann 6. apríl, en tónleikarnir fara fram þann 16. september. En Palli lætur ekki nægja að skipuleggja bara tónleika í haust því ný plata mun einnig líta dagsins ljós í september sem verður fyrsta sólóplatan hans í næstum áratug.

„Restin af árinu hjá mér fer nánast bara í þessa tónleika og nýju plötuna sem kemur út á sama tíma. Mig hefur dreymt um að gera svona tónleika í mörg ár og núna kom loksins tækifærið til þess að gera eitthvað svona.“

Gengur á háu hælunum úr Laugardalshöll og upp í Borgarleikhús

Palli leggur ekki árar í bát þegar tónleikunum er lokið, þá tekur við næsta verkefni sem er Rocky Horror í Borgarleikhúsinu.

„Þetta verður þannig að ég klára tónleikana í Laugardalshöllinni og tölti svo bara á háu hælunum yfir í Borgarleikhúsið,“ segir Palli en tilkynnt var um ráðningu hans í hlutverk dr. Frank N Furter á dögunum.

Hann er alls ekki ókunnugur því hlutverki en hann lék sama hlutverk í vinsælli uppfærslu Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1991. Söngleikurinn verður frumsýndur í mars á næsta ári en æfingar munu hefjast næsta haust. Að taka þátt í svona sýningu er mikil vinna og krefst viðveru allar helgar á sýningartíma.

„Þetta þýðir að ég þarf kannski aðeins að draga saman í dansiballaspilamennsku en ég mun ekkert hætta því,“ segir Palli hvergi banginn og fullur eftirvæntingar fyrir komandi ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert