Fagnaðarefni að erlendir aðilar greiði skatta

Erlendar efnisveitur á borð við Netflix greiða virðisaukaskatt á Íslandi. …
Erlendar efnisveitur á borð við Netflix greiða virðisaukaskatt á Íslandi. Að mati FRÍSK er þó við ofurefli að etja. AFP

Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður FRÍSK, Fé­lags rétt­hafa í sjón­varps- og kvik­myndaiðnaði, segir það vera góðar fréttir að erlendar efnisveitur á borð við Netflix og Spotify greiði skatta á Íslandi. Í vikunni sendi FRÍSK frá sér tilkynningu þar sem fullyrt var að erlendar efnisveitur greiði eng­an virðis­auka­skatt eða önn­ur op­in­ber gjöld hér á landi og það reynist innlendum aðilum ókleift að keppa við.

Það reyndist ekki vera rétt en í ljós kom að efn­isveiturn­ar Net­flix og Spotify greiða skatta á Íslandi sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Rík­is­skatt­stjóra. Bæði fyr­ir­tæk­in eru skráð í VSK-skrá í gegn­um ís­lensk­an umboðsmann en Net­flix var skráð 1. janú­ar 2016.

„Ég fagna því auðvitað ef svo er komið,“ segir Hallgrímur og bætir við að ef til vill hafi það verið mistök að kanna málið ekki betur áður en tilkynningin var send út. Það breyti því þó ekki, að þær kvaðir sem innlendir aðilar búi við, geri það að verkum að erfitt sé að keppa við erlenda risa.

„Við eyðum hundruðum milljóna á ári í talsetningu og textun. Við þurfum að standa straum af kvikmyndaskoðun og öllu sem því fylgir og ýmsum öðrum álögum og reglugerðum sem erlendir aðilar þurfa ekki að standa straum af,“ útskýrir Hallgrímur.

Kvaðir verði að víkja

Nefnir hann sem dæmi, og segir með öllu óskiljanlegt, að kvikmyndir og sjónvarpsefni, kvikmyndahús og myndefnisveitur, þurfi að greiða 24% virðisaukaskatt á meðan virðisaukaskattur á bækur og tónlist er 11%. „Það er bara engin sanngirni þarna,“ segir Hallgrímur.

Hann segir lækkun virðisaukaskatts vera það fyrsta sem yfirvöld ættu að ráðast í til að bregðast við vandanum og styðja íslenskan iðnað. Þá mættu hinar og þessar kvaðir og reglugerðir jafnframt víkja svo innlendir aðilar í geiranum fari ekki með starfsemi sína úr landi að mati Hallgríms.

„Það eru íslensk fyrirtæki farin að stofna framleiðslufyrirtæki erlendis til að geta verið samkeppnishæf. Ekki viljum við fá þessa miðla úr landi,“ segir Hallgrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert