Versti ótti afans skók tilveruna

„Ég man eft­ir ein­um afa sem ég veitti meðferð einu sinni sem elskaði barna­börn­in sín en fékk svona hræðileg­ar hugs­an­ir upp í hug­ann um að leita á barna­börn­in sín kyn­ferðis­lega. Maður get­ur rétt ímyndað sér hversu mikla skelf­ingu og hryll­ing það vakti hjá hon­um enda fannst hon­um að hann bæri ábyrgð á þess­um hugs­un­um, þetta hlyti að segja eitt­hvað um hann. Venju­legt fólk hugsi ekki svona, taldi hann. Þannig að hann brást við á mjög skilj­an­leg­an hátt, með því að tak­marka aðgengi sitt að barna­börn­un­um. Það væri alltaf ein­hver með af því að hann treysti ekki sjálf­um sér.“

Þetta er dæmi þar sem áleitn­ar hugs­an­ir höfðu mik­il og al­var­leg áhrif á líf manns sem var í meðferð hjá Andra Steinþóri Björns­syni, pró­fess­or við Háskóla Íslands, sem stýr­ir nú rann­sókn á efn­inu. Mörg­um spurn­ing­um um áráttu- og þrá­hyggjurösk­un er ósvarað og rann­sókn­inni er ætlað að bæta við þá þekk­ingu sem fyr­ir er.

„Það sem við erum að rann­saka eru svo­kallaðar áleitn­ar hugs­an­ir í áráttu- og þrá­hyggjurösk­un. Sér­stak­lega hvernig fólk bregst við þess­um áleitnu hugs­un­um og hvernig þessi geðrösk­un, sem er kölluð áráttu- og þrá­hyggjurösk­un, þró­ast,“ seg­ir Andri. 

Viðbrögð af­ans voru eðli­leg og dæmi­gerð fyr­ir fólk sem lend­ir í þess­ari stöðu seg­ir Andri og ótt­inn fær fólk til þess að grípa til mjög af­drifa­ríkra úrræða. „Í þessu til­viki þá rústaði þetta gjör­sam­lega lífi þessa manns, hvernig hann hugsaði um sig og hvernig þetta fór að hafa áhrif á hans líf.“

Hugs­an­ir sem þröngva sér inn í hug­ann

Áleitn­ar hugs­an­ir eru eins og nafnið gef­ur til kynna hugs­an­ir sem leita á hug­ann og þröngva sér inn í vit­und fólks. Slík­ar hugs­an­ir eru oft nei­kvæðar og ganga þvert gegn gild­um fólks og tengj­ast til dæmis kyn­lífi eða of­beldi þar sem fólk sér sig fyr­ir sér gera hluti sem það vill alls ekki gera.   

„Fólk fyll­ist oft skelf­ingu við það að fá þess­ar hugs­an­ir upp í hug­ann, en það sem er mik­il­væg­ast er hvað ger­ist næst. Því við vit­um að nán­ast all­ir upp­lifa áleitn­ar hugs­an­ir.“ Fari fólk að leggja ein­hverja merk­ingu í hugs­an­irn­ar, að þær segi eitt­hvað um viðkom­andi og hann beri ábyrgð á þeim sé lík­legt að þá fari fólk að reyna að stjórna þeim á ein­hvern hátt, að sögn Andra og þá fari að mynd­ast vítahringur áráttu og þráhyggju.­

„Fólk fer að gera eitt­hvað í hug­an­um, til dæmis telja ein­hverj­ar talnarun­ur eða bæla hugs­un­ina niður.“ Al­gengt sé að fólk fari að þvo sér end­ur­tekið sé það með áleitn­ar hugs­an­ir tengd­um sýkl­um og þá séu marg­ir sem þurfi að at­huga end­ur­tekið hvort þeir hafi ör­ugg­lega slökkt á elda­vél­inni. Fólk bregðist við með því að reyna að koma í veg fyr­ir þetta hræðilega sem gæti gerst.

Séu það viðbrögðin seg­ir Andri lík­legt að fólk þrói með sér áráttu- og þrá­hyggjurösk­un. Fólk bregst við ótta um inn­brot í húsið með því að kanna end­ur­tekið hvort úti­dyra­h­urðin sé læst. „Það sem ger­ist í því ferli er að fólk verður minna visst því oft­ar sem það at­hug­ar hlut­ina og [endurtekningin] verður því hluti af því sem viðheld­ur þess­um vanda hjá fólki.“

Mörgum spurningum ósvarað

Rösk­un­in á sér ýms­ar birt­ing­ar­mynd­ir og marg­ar geta virst sak­laus­ar. Hún hef­ur verið viðfangs­efni bíó­mynda á borð við As Good as It Gets og per­són­ur í Woo­dy Allen-mynd­um hafa gjarn­an verið að glíma við áleitn­ar hugs­an­ir. Það er því nokkuð al­gengt að fólki tali um OCD (e. Obsessi­ve compulsi­ve disor­der) á létt­um nót­um og hægt er að taka próf á net­inu sem eiga að segja til um hvort maður sé hald­inn þrá­hyggjurösk­un af ein­hverju tagi.

Í prófi sem hægt er að taka á per­sóna.is fékk þessi poll­ró­legi blaðamaður niður­stöðuna: „Þú sýn­ir nokk­ur ein­kenni um áráttu og þrá­hyggju, en þó vel inn­an eðli­legra marka,“ og lík­lega er hún sú al­geng­asta, en hversu marg­ir eru með áráttu- og þrá­hyggjurösk­un?

„Þetta er til­tölu­lega al­geng geðrösk­un, rann­sókn­ir sýna að lífstíðaral­gengi sé í kring­um 2-3% þar sem fólk upp­fylli öll skil­merki fyr­ir þessa geðrösk­un.“ Til að fólk sé greint með rösk­un­ina þarf það að eyða klukku­stund eða meira á hverj­um degi í slík­ar hugs­an­ir og viðbrögð við þeim og að þetta mynstur hafi ein­hvers­ kon­ar áhrif á líf fólks. Hins ­veg­ar seg­ir Andri að 13-30% fólks sé að kljást við ágeng­ar hugs­an­ir og bregst við þeim á ein­hvern hátt en áhrif þeirra á líf fólks eru ekki þannig að það yrði greint með rösk­un­ina.

Hvaðan koma þess­ar hugs­an­ir?

„Það er góð spurn­ing og ég held að við vit­um ekki al­veg nógu mikið um þetta. Sum­ar kenn­ing­ar ganga út á að það sé ein­mitt það sem maður ótt­ast mest sem maður fer að hugsa um. Hvaðan það kem­ur er mjög per­sónu­bundið og menn­ing­ar­tengt. Ein teg­und hugs­ana í áráttu- og þrá­hyggjurösk­un er ótti við sjúk­dóma og smit. Það breyt­ist eft­ir því hvaða sjúk­dóma við ótt­umst sem sam­fé­lag. HIV-smit og eyðni var eitt helsta dæmið sem fólk með áráttu- og þrá­hyggjurösk­un óttaðist en svo breytt­ist það og nú eru það aðrir sýkl­ar og aðrar veir­ur sem fólk hef­ur mestar áhyggj­ur af.“

Er stund­um talað um áráttu- og þrá­hyggjurösk­un á of létt­væg­an hátt?

„Ég held að það geti verið þannig, þegar þessi stimp­ill að vera með OCD er orðinn létt­væg­ur. Það er þannig að fólk sem grein­ist með þessa rösk­un er sann­ar­lega oft skelf­ingu lostið út af þess­um hugs­un­um. Líf þess er oft og tíðum farið að snú­ast um að halda þess­um hugs­un­um í skefj­um. Þannig að þetta get­ur orðið til þess að fólk átt­ar sig ekki á því hversu al­var­leg­ur vandi þetta get­ur verið.   

Andri seg­ir hægt að vinna gegn skaðsemi hugs­an­anna með því að fræðast um eðli þeirra og eðli hug­ans. Þessa virkni hug­ans seg­ir hann t.a.m. oft vera tengda við sköp­un­ar­gáfu og vitn­eskj­an um að það sem maður ótt­ast mest sé eitt­hvað sem sé ekki lík­legt til að ger­ast, get­ur hjálpað mjög mörg­um sem eiga við vægan vanda að stríða og gert form­lega meðferð óþarfa. Fest­ist fólk í víta­hring áráttu og þrá­hyggju seg­ir Andri marga sál­fræðinga sér­hæfa sig í meðferð á þessari röskun og nefn­ir Kvíðameðferðar­stöðina þar sem hug­rænni at­ferl­is­meðferð er beitt. Þá sé hægt að ná ár­angri með lyfja­gjöf.

Rannsakendur leita að þátttakendum sem eru eldri en 18 ára og hafa greinst með áráttu- og þráhyggjuröskun eða telja sig líklega til að vera með þá kvíðaröskun.  

Þeir sem hafa áhuga á þátt­töku geta fengið frek­ari upp­lýs­ing­ar með því að senda tölvu­póst á net­fangið hugs­an­irog­at­hygli@hi.is. Greitt er fyr­ir þátt­töku og fyllsta trúnaðar er heitið. Rann­sókn­in hef­ur verið samþykkt af Vís­indasiðanefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert