Hrifsaði pakka af vegfaranda

mbl.is/Þórður

Karlmaður var handtekinn af lögreglu á Austurvelli í Reykjavík á sjötta tímanum í dag en hann hafði verið að angra gesti og gangandi með ölvunarlátum og ofbeldisfullum tilburðum. Hafði hann samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni meðal annars slegið til aldraðs manns.

„Jafnframt hafði hinn tilkynnti maður hrifsað póstsendingu úr höndum annars vegfaranda, sem hafði nýverið sótt pakka á pósthús, og opnað póstsendinguna og stungið innihaldi hennar í úlpuvasa sinn,“ segir enn fremur en með háttsemi sinni hafi maðurinn gerst sekur um gripdeild og að hnýsast í bréf sem hefði að geyma upplýsingar um einkamál annars manns.

„Hafði réttmætur eigandi póstsendingarinnar þó náð að endurheimta hana úr vörslum hins tilkynnta áður en lögreglu bar að garði. Var maðurinn í kjölfarið handtekinn og vistaður í fangageymslum þar til hann verður viðræðuhæfur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert