Skellti höfði fangans tvisvar í gólfið

Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Lögreglumaðurinn, sem ákærður hefur verið fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi sínu, er sakaður um að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við flutning fanga úr fangageymslu og fyrir dómara.

Í ákæru héraðssaksóknara segir að eftir að lögreglumaðurinn hafi handjárnað fangann að framanverðu, hafi hann tekið um hálsmálið á peysu hans, ýtt honum upp að vegg og svo tekið hann niður í gólfið, þar sem fanginn lenti á bakinu.

Áður hefur komið fram að atvikið náðist á myndbandsupptöku.

Þá mun lögreglumaðurinn hafa sett hægra hné sitt á bringu fangans, skellt höfði hans tvisvar sinnum í gófið auk þess að ógna honum „með því að halda krepptum hnefa sínum framan við andlit hans.“

Krefst tveggja milljóna króna

„Því næst dró ákærði [fangann] á fætur og skellti honum upp við vegg og eftir að [fanginn] hneig niður í gólfið aftur dró ákærði hann, með því að halda í föt hans, út fangaganginn og að lyftu í fangageymslu,“ segir í ákærunni.

Fram kemur að fanginn hafi af þessu hlotið blæðingu í og undir húð á hnakka, eymsli og væga bólgu yfir liðbandi í hægri ökkla, auk þess sem grunur var um rifbrot á einu rifi vinstra megin.

Þá teljast brot lögreglumannsins varða við 132. gr. og 217. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fanginn sjálfur hefur til viðbótar lagt fram einkaréttarkröfu, þar sem hann krefst tveggja milljóna króna í skaðabætur auk greiðslu málskostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert