Vinna í lausn vandans við Lindargötu

Gistiskýlið við Lindargötu.
Gistiskýlið við Lindargötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg hyggst setja á laggirnar varanlegt búsetuúrræði fyrir að minnsta kosti tíu þeirra sem nú nýta sér gistiskýlið við Lindargötu. Þetta segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar.

Undanfarna daga hafa fréttir verið fluttar af vandræðum sem gistiskýlið hefur valdið nágrönnum þess. Dæmi eru um að skjólstæðingar þess hafi til að mynda andast í nærliggjandi götum.

Í samtali við mbl.is segist Regína meðvituð um þennan vanda. Hún segir að gistiskýlið sé þó líka opið á daginn og að þar sé pláss fyrir allt að tíu manns.

„Þeir sem eru veikir eða illa á sig komnir að öðru leyti, þeir geta alltaf leitað inn í gistiskýlið, hvort sem það er nótt eða dagur,“ segir hún og bendir á að salernisaðstaðan sé sömuleiðis opin allan sólarhringinn.

„Þeir ættu því ekki að þurfa að ganga örna sinna annars staðar, eins og vikið hefur verið að í fréttum.“

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Kynnt í borgarráði í síðustu viku

Þá segir Regína að stefnt sé að því að fækka í hópi þeirra sem nýta sér gistiskýlið, en það eru um 25 manns að jafnaði.

„Það sem okkar sérfræðingar leggja til, og við kynntum í borgarráði í síðustu viku, er að koma á fót varanlegu búsetuúrræði fyrir að minnsta kosti tíu manns og draga um leið verulega úr starfseminni í gistiskýlinu,“ segir hún og bætir við að unnið sé að því.

„Það gerist ekki á einum degi, en við erum svo sannarlega að vinna í þessum málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert