Dæmdur á grundvelli rangrar ákæru

Dæmt var í öllum málunum í september á síðasta ári.
Dæmt var í öllum málunum í september á síðasta ári. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Endurupptökunefnd hefur heimilað upptöku þriggja sakamála þar sem nefndin segir að verulegir gallar hafi verið á meðferð málanna, sem líklega hafi haft áhrif á niðurstöðu þeirra. Ríkissaksóknari bað nefndina um að öll málin yrðu tekin upp að nýju.

Í fyrsta málinu, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands þann 22. september síðastliðinn, var karlmaður á þrítugsaldri dæmdur til að sæta fangelsi í sjö mánuði, en sex mánuðir refsingarinnar voru skilorðsbundnir til tveggja ára.

Við ákvörðun refsingarinnar var þó tvisvar tekið tillit til sama skilorðsdóms, sem hann hafði hlotið í nóvember árið 2015, og honum því að líkindum verið gerð mun þyngri refsing en efni stóðu til, að því er fram kemur í beiðni ríkissaksóknara.

Ranglega ákærður

Í öðru málanna, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. september 2016, var annar karlmaður á þrítugsaldri dæmdur til að sæta fangelsi í sjö mánuði, en sex mánuðir refsingarinnar voru skiloðsbundnir til tveggja ára.

Fram kemur í endurupptökubeiðni ríkissaksóknara að hann hafi orðið þess áskynja að manninum hafi að öllum líkindum verið gerð mun þyngri refsing en efni stóðu til. Það megi annars vegar rekja til þess að hann hafi ranglega verið ákærður fyrir að aka sviptur ökurétti, í stað þess að vera ákærður fyrir að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi, sem ætla má að leitt hefði til vægari viðurlaga.

Þá megi einnig rekja þynd refsingarinnar til þess að tilkynning Héraðsdóms Vesturlands til sakaskrár ríkisins, eftir annan dóm nokkrum árum áður, hafi verið röng. Því hafi sakavottorð hans í málinu ranglega borið með sér að hann hefði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára þegar hann hafði í raun verið dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði en fullnustu þriggja mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í þrjú ár.

Reynslulausn dæmd upp í tvígang

Í þriðja málinu, sem dæmt var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 9. september 2016, var einnig um að ræða karlmann á þrítugsaldri. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í sjö mánuði, en refsingin var skilorðsbundin að öllu leyti til þriggja ára.

Fram kemur í beiðni ríkissaksóknara að manninum hafi að öllum líkindum verið gerð mun þyngri refsing en efni stóðu til þar sem reynslulausn, sem honum hafi verið veitt 16. febrúar 2013 á eftirstöðum refsingar í 182 daga, hafi verið dæmd upp í tvígang með dómum mannsins.

Ástæðu þess megi rekja til þess að sakavottorð sem lagt hafi verið fram í málinu hafi verið útgefið 4. febrúar 2015, áður en dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp.

Nefndin tekur fram í öllum þremur úrskurðunum að á meðferðum málanna hafi verið verulegur galli í skilningi laga um meðferð sakamála, sem líklega hafi haft áhrif á niðurstöðu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert