Þetta er mikið öryggismál

Talsverð hætta getur skapast þegar fjöldi bílar stöðvar í vegkanti.
Talsverð hætta getur skapast þegar fjöldi bílar stöðvar í vegkanti. Ljósmynd/Pétur Gauti

Sóley Jónasdóttir, starfsmaður hjá Vegagerðinni, hefur lokið við að fara hringveginn þar sem hún hefur skráð niður þá staði þar sem ferðamenn stoppa oftast. Hún leggur nú lokahönd á skýrslu sem nýtist ef farið verður í að fjölga útskotum á þjóðvegum landsins.

„Þetta gekk út á það að skrá staði þar sem ferðamenn eru að stoppa við vegi eða í vegkanti. Þeir hnappdreifast á suma staði, vegna einhvers í umhverfinu,“ segir Sóley í samtali við mbl.is en hún skráði fjölda staða þar sem vinsælt er að stöðva ökutæki og skoða sig um.

„Ég er búin að skrá 103 staði á hringveginum en þetta er langmest í kringum Vík og að Höfn.

Hún segir að fólk hafi talsverðar áhyggjur, enda skapist oft hætta þegar fólk stöðvar ökutæki úti í vegkanti á þjóðvegum. „Fólk hefur áhyggjur af þessu og þetta er mikið öryggismál. Oft munar mjög litlu að slys verði. Að sama skapi er vanmátturinn mikill; það eru ekki til peningar í þetta en vandamálið er til staðar.

Sóley ræddi við stóra aðila í ferðaþjónustunni og starfsfólk í þjónusturekstri Vegagerðarinnar til að átta sig betur á helstu stoppunum. „Þetta liggur þá fyrir, hvar þeir eru að stoppa, en framhaldið er háð fjárlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert