Gylfi er með 1.460 þúsund í laun

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, er með 1.460 þúsund á mánuði í laun. Hann fær ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu en nýleg tímaskráning sýnir að hann vinni um 60 klukkustundir á viku. Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Laun Gylfa eru birt vegna fyrirspurnar frá Stundinni um launakjör Gylfa. Í svari Gylfa kemur fram að laun hans séu 1.460 þúsund krónur á mánuði. Þó að forseti fái ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu er vinnutíminn nokkuð langur, en nýleg tímaskráning á starfi forsetans sýnir að hann vinnur um 60 klukkustundir á viku.

Meðaltal heildarlauna á almennum vinnumarkaði, samkvæmt könnun Hagstofu Íslands, var 708 þúsund krónur árið 2016 (launakönnun Hagstofunnar frá 2015 hækkuð m.v. launavísitölu milli 2015 og 2016). Laun forseta ASÍ eru því ríflega tvöföld (2,4) þau meðallaun sem eru á almennum vinnumarkaði. Ef tekið er tillit til vinnutíma og vinnustundum deilt í heildarlaun þá er forseti ASÍ með 1,4 sinnum meðallaun á almennum vinnumarkaði, segir á vef ASÍ.

Meðal þeirra sem hafa gert launamál Gylfa að umtalsefni er Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra. 

Nýkjörinn formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, hefur verið harðorður í garð Gylfa og eins launaþróunar innan verkalýðshreyfingarinnar.

Í viðtali við Vísi nýverið sagðist Ragnar ætla að fara fram á það við stjórn verkalýðsfélagsins að laun hans verði lækkuð. Hann segir fullkomlega óeðlilegt að formaður félagsins hækki meira í launum en hann sé tilbúinn til að semja um fyrir sína félagsmenn.

Laun formanns VR hafa hækkað um ríflega 43 prósent á síðustu tveimur árum og eru nú um 1.410 þúsund krónur með ökutækjastyrk. Á sama tíma hafa laun félagsmanna VR hækkað um 12,6 prósent. Ragnar hyggst fara fram á að laun hans verði lækkuð um 300 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert