Logi skaut föstum skotum á Viðreisn

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn var ekki eini flokkurinn sem talaði um peningamál fyrir kosningar. Hann var hins vegar fyrsti flokkurinn til þess að hlaupa frá málflutningi sínum, eða var hann ekki stofnaður vegna ágreinings við Sjálfstæðisflokkinn um peningamál?

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lét þessi ummæli falla í umræðum um gengisþróun og afkomu útflutningsgreina á Alþingi í dag. Áður hafði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra fullyrt að Viðreisn hefði verið eini flokkurinn sem talaði um peningamál fyrir kosningar síðasta haust.

Logi spurði hvort væri gáfulegra fyrir risa, sem er svo hávaxinn að hann gnæfir við skýin og þráir að skoða mannlífið, að beygja sig rólega niður eða höggva af sér fæturna við hné? „Best hefði líklega verið að honum hefðu verið gefin hormón í æsku sem dregið hefðu úr vextinum,“ sagði Logi en ferðaþjónustan var risinn í samlíkingunni. 

Hér höfum við varla mátt minnast á skattafslátt á ferðaþjónustuna án þess að allt hafi orðið vitlaust. Það hefði átt að hækka gjöld á ferðamenn þegar greinin var nógu burðug til að bera hana en bjó við miklu lægra gengi. Ekkert hefur verið gert, hún vex öðrum greinum yfir höfuð og er jafnvel farin að ryðja þeim úr vegi. Og nú er flóknara að leggja álögur á greinina sem býr við þetta háa gengi,“ bætti Logi við.

Hann benti einnig á að almenningur hefði í kjölfar hruns og falls krónunnar þurft að taka á sig stórkostlegar kjaraskerðingar til að bjarga útflutningsgreinunum og sjái loks fram á betri tíð með háu gengi. „Það felst ekki mikið réttlæti í því að almenningur taki aftur á sig kjaraskerðingar til að útflutningsgreinarnar haldi áfram að græða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert