Ölvun og óspektir

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan handtók mann fyrir ölvun og óspektir í miðborginni í gærkvöldi og er hann vistaður í fangaklefa. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á hann von á kæru fyrir gripdeild og brot á lögreglusamþykkt auk fleiri brota.

Einn sem lögregla handtók í nótt fyrir eignaspjöll var í svo mikilli vímu að ekki var mögulegt að yfirheyra hann. Það verður gert síðar í dag og gistir hann því fangageymslu þangað til.

Lögreglan hafði afskipti af tveimur ökumönnum á næturvaktinni. Annar var undir áhrifum áfengis en hinn fíkniefna. Báðir eru án ökuréttinda þar sem þeir hafa verið sviptir þeim réttindum. Fíkniefni fundust á ökumanninum sem var undir áhrifum fíkniefna og eins á farþega í bifreiðinni.

Mennirnir voru allir látnir lausir að lokinni sýna- og skýrslutöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert