Ferðamenn höfðu samband við lögregluna á Suðurlandi skömmu fyrir eitt í nótt þar sem þeir voru rammvilltir á Sólheimasandi. Höfðu þeir gengið að flugvélarflakinu og rötuðu ekki aftur í bílinn.
Að sögn varðstjóra þurfti að kalla út björgunarsveitarmenn til þess að aðstoða ferðamennina en þegar komið var á vettvang fundust ferðamennirnir hvergi og ekki náðist í þá í síma. Allt bendir til þess að þeir hafi loksins ratað í bíl sinn því bifreiðina var hvergi að sjá heldur.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í gærkvöldi fyrir hraðakstur. Sá sem hraðast ók var stöðvaður í Eldhrauni, skammt frá Kirkjubæjarklaustri en hann mældist á 135 km hraða. Hinir tveir voru stöðvaðir á Hellisheiði, annar á 134 km hraða og hinn á 115 km hraða.