Veðurstofan varar við stormi

Veðurstofa Íslands varar við austanstormi undir Eyjafjöllum og austur í Öræfasveit á morgun. Vindhviður geti náð 35 m/s. Búast megi við talsverðri úrkomu austan Öræfa síðdegis.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn gera annars ráð fyrir austan og síðar norðaustan 8-13 m/s og smá skúrum eða slydduéljum, en þurru suðvestan til á landinu.

Gert er ráð fyrir norðaustan 15-23 m/s á morgun og talsverðri rigningu suðaustan til og sums staðar slyddu. Síðan léttir víða til sunnan- og vestanlands.

Hægari suðaustanátt verður annað kvöld austan til á landinu. Hiti verður á bilinu 2 til 11 stig að deginum, hlýjast á Suðurlandi, en víða vægt næturfrost.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert