Vilja kjósa um nýjar viðræður við ESB

Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn Pírata.
Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort óska eigi eftir nýjum viðræðum við Evrópusambandið um inngöngu Íslands í sambandið. Þjóðaratkvæðið fari fram vorið 2018.

Spurt verði: Vilt þú að ríkisstjórnin hefji að nýju samningaviðræður við Evrópusambandið um hugsanlega inngöngu Íslands? Rifjað er upp í greinargerð að sótt hafi verið um inngöngu í sambandið sumarið 2009. Umsóknarferlið var sett á ís skömmu fyrir þingkosningarnar 2013 af þáverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tilkynnti Evrópusambandinu síðan 2015 að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að sambandinu.

Þingflokkur Pírata telur að síðan þá hafi staða Íslands verið óskýr í þessum efnum. „Hér er lagt til að vilji almennings í málinu verði fenginn fram með skýrum hætti til leiðbeiningar fyrir Alþingi og ríkisstjórnina um framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert