Vont að neytendur þurfi að bíða lengur

Neytendur þurfa að bíða til áramóta eftir að tollasamningurinn við …
Neytendur þurfa að bíða til áramóta eftir að tollasamningurinn við ESB taki gildi. mbl.is/Golli

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir það bagalegt fyrir innflytjendur matvæla að gildistöku tollasamnings við Evrópusambandið seinki enn frekar enda hafi þeir verið byrjaðir að skipuleggja innkaup og birgðahald með hliðsjón af því að samningurinn tæki gildi um mitt ár.

Upphaflega stóð til að samningurinn tæki gildi um síðustu áramót en vegna seinagangs hjá Evrópusambandinu tafðist allt ferlið og er nú stefnt að því að því að samningurinn taki gildi um næstu áramót að sögn Borgars Þórs Einarssonar, aðstoðarmanns utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld.

Ólafur segir að það sé vont fyrir neytendur að gildistakan frestist enda sé samningurinn mikið hagsmunamál fyrir neytendur, en nú gefist svigrúm til að undirbúa nýtt fyrirkomulag á úthlutun tollkvóta sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra hafa lýst yfir að eigi að taka mið af hagsmunum neytenda.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. mbl.is

„Það stendur til að leggja af útboð tollkvóta í núverandi mynd. Það kerfi er í fyrsta lagi ólögmætt og í öðru lagi hefur það leitt af sér gríðarlega hátt verð á kvótanum, sem í ýmsum tilvikum étur upp allan ávinning neytenda af tollfrelsinu. Nú ætti að vera tryggt að það verði úr sögunni þegar tollasamningurinn kemur til framkvæmda. Fyrir vikið ætti verðlækkunin á innfluttu vörunni að verða enn meiri loksins þegar samningurinn tekur gildi,“ segir Ólafur.

Á vef Félags atvinnurekenda má finna töflu yfir breytingar á tollkvótum við gildistökuna, en kvótarnir verða innleiddir í skrefum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert