„Ég bara fékk mig fullsadda á þessu“

Ástrós Rut Sigurðardóttir og Bjarki Már Sigvaldason.
Ástrós Rut Sigurðardóttir og Bjarki Már Sigvaldason. Ljósmynd/Ástrós Rut Sigurðardóttir

„Ég var bara stödd fyrir utan Krabbameinsfélagið á leiðinni með pappíra yfir það sem við höfum verið að greiða í sjúkrakostnað og lyfjakostnað á stjórnarfund hjá Krafti til þess að reyna að fá endurgreiddan hluta þess sem við höfum borgað og ég hugsaði bara með mér að ég yrði bara að tjá mig um þetta og opna þessa umræðu. Ég gæti ekki lengur staðið í þessu og haldið áfram að borga þegjandi og hljóðalaust. Það er fullt af fólki í þessari stöðu en það segir enginn neitt.“

Þetta segir Ástrós Rut Sigurðardóttir í samtali við mbl.is en hún birti fyrr í dag myndband á Facebook-síðu sinni þar sem hún sat í bifreiðinni sinni fyrir utan Krabbameinsfélagið með bunka af blöðum yfir þann kostnað sem hún og maðurinn hennar hafa þurft að greiða undanfarin misseri í kostnað vegna veikinda hans. Maðurinn hennar, Bjarki Már Sigvaldason, greindist með krabbamein árið 2012 og hefur glímt við meinið síðan.

„Þetta er bara orðið svo ólíðandi ástand hvað þeir, sem virkilega þurfa á hjálp að halda og eru að glíma við lífshættulega sjúkdóma, fá í raun litla aðstoð. Ég vildi bara reyna að opna þessa umræðu aðeins og láta stjórnvöld heyra það því þetta er bara ekki að ganga upp. Þetta dæmi er ekki að virka. Það eru þegar dæmi um fólk sem er að hafna lyfjameðferðum vegna þess að það hefur ekki efni á þeim. Þetta er bara alveg skelfilegt ástand.“

Átti engan veginn von á viðbrögðunum

Ástrós segist einfaldlega hafa fengið nóg og viljað leyfa fólki að sjá hvað hún og Bjarki væru að takast á við. Myndbandið hefur fengið gríðarlega mikil viðbrögð og segist hún engan veginn hafa átt von á þeim. „Ég er eiginlega hálf sjokkeruð yfir þessum viðbrögðum, en á jákvæðan hátt,“ segir hún. Meðal annars hafi hún fengið póst frá Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, sem vilji koma á fundi með henni og Óttarri Proppé heilbrigðisráðherra.

„Jón Þór er búinn að reyna mikið til að ná í heilbrigðisráðherra en hann hefur ekki svarað enn. Bæði í gegnum síma og Facebook. En hann ætlar að reyna áfram. Ef ráðherrann svarar og tekur vel í þetta þá er ég tilbúin að hitta hann hvenær sem er yfir kaffibolla og ræða þessi mál. Ég tel að þeir sem eru þingmenn og ráðherrar þurfi líka að tala við fólk sem er að takast á við svona hluti. Er í miðri hringiðunni. Vonandi verður bara af því. 

Spurð hversu mikið þau Bjarki hafi þurft að borga vegna veikinda hans segist hún ekki hafa tekið það nákvæmlega saman en frá upphafi sé það yfir ein og hálf milljón króna. „Tvö þúsund kall hér, átta þúsund kall þar, 20 þúsund kall hér. Þetta telur allt, þetta er svo fljótt að fara í mjög stóra tölu. Hann var bara 25 ára þegar hann greindist. Við vorum bara að byrja lífið. Við vorum í leiguíbúð og að spá í barneignum. Við þurftum að setja það allt á ís.“

Veikindin algerlega tekið yfir líf þeirra

Ástrós segir að þau séu núna að reyna að eignast barn í gegnum glasafrjóvgun og séu í miðri meðferð. Eina ástæðan fyrir því að þau geti staðið undir þeim kostnaði sé aðstoð fólksins í kringum þau sem hafi greitt fyrir hana. „Við getum ekki keypt okkur íbúð í dag, við getum ekki leyft okkur mikið. Lyfin, lækniskostnaður, matur og leiga eru einfaldlega í forgangi. Þá er bara peningurinn búinn. Þetta er farið að verða frekar erfitt ástand.“

Veikindin hafi algerlega tekið yfir líf þeirra og þannig hafi það verið í fimm ár. „Ef þú greinist með svona lífshættulegan sjúkdóm, áttu ekki bara að fá þetta frítt? Er ekki nóg að þurfa að berjast fyrir lífi þínu og hafa áhyggjur af því? Þarf líka að hafa endalausar peningaáhyggjur? Þetta er ástæðan fyrir því að ég bara fékk mig fullsadda á þessu og ákvað að varpa ljósi á þetta. Hvernig Ísland er í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert