Fleiri eldri einmana

Fleiri eldri borgarar eru einmana.
Fleiri eldri borgarar eru einmana. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sá hópur eldri borgara sem upplifir einmanaleika hefur farið stækkandi frá árinu 2007. Árið 2012 voru 13% eldri borgara sem sögðust stundum eða oft hafa verið einmana samanborið við 17% árið 2016. Þetta kemur fram í könnun á greiningu á högum og líðan aldraðra á Íslandi árið 2016 og var kynnt nýverið. 

Um tveir af hverjum þremur eldri borgurum eða 65% er aldrei einmana árið 2016 en árið 2007 var hlutfallið 78%. Mun fleiri upplifa einmanaleika stundum eða oft í hópi þeirra sem eru ógiftir eða ekkjur/ekklar, búa einir, eru tekjulitlir eða hafa slæma heilsu. 

Frétt mbl.is: Fleiri eldri borgarar hafa fjárhagsáhyggjur

Eldri borgarar á ferð í Reykjavík.
Eldri borgarar á ferð í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

 Einmanleiki finnst í öllum aldurshópum

„Það má samt má ekki gleyma að við finnum einmanaleika í öllum aldurshópum. Einmanaleiki getur aukist þegar fólk eldist og einangrast inn á heimilum sínum meðal annars þegar hreyfigetan minnkar,“ segir Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri Þjónustunnar heim, sem er félagsleg heimaþjónusta Reykjavíkurborgar. 

Í þessu samhengi bendir hún á að ytri aðstæður geti haft áhrif eins og til dæmis húsnæði. Þeir eldri borgarar sem bjuggu í blokk með engri lyftu og áttu erfitt með að hreyfa sig leið verr andlega en þeim sem bjuggu í hentugra húsnæði, að sögn Berglindar. Þetta er samkvæmt gögnum úr RAI gagnagrunni og er notaður í heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og er á öllum hjúkrunarheimilum á landinu. 

„Fjölskyldur og tengslanet fólks skiptir mestu máli þegar litið er til andlegrar líðan eldri borgara. Fjölskyldan getur veitt mestu og bestu gæðin. Ríki og sveitarfélög koma ekki í staðinn fyrir það,“ segir Berglind og bætir við: „Við þurfum að vera meira ítölsk.“ Til útskýringar segir hún að þar er ríkari hefð að stórfjölskyldan komi saman reglulega og hugsi hvert um annað.   

Fleiri hjúkrunarrými og dagdvöl 

Hún tekur fram að vissulega hafi ríki og sveitarfélög ákveðnum skyldum að gegna gagnvart eldri borgurum. Hún segir að huga verði betur að þeim eldri borgurum sem eru veikburðastir og eiga erfitt með að hreyfa sig og þar af leiðandi sækja sér síður félagsskap.

Dagdvöl fyrir eldri borgara er einungis á tveimur stöðum í Reykjavíkurborg í Múlabæ og í Þorraseli. Dagdvalir eru bæði til almennar og einnig sértæk fyrir fólk með heilabilanir.

Þær þyrftu að vera fleiri, að sögn Berglindar. Engin er í austurhluta borgarinnar, í Breiðholti og Árbæ. „Við vitum að öldruðum fjölgar mjög hratt og sérstaklega í Breiðholti,“ segir Berglind og bendir á að það verði að koma til móts við þennan ört stækkandi hóp.

Hún segir einnig mikilvægt að uppbyggingu á hjúkrunarrýmum í Reykjavík verði flýtt. Í borginni eru fæst slík rými miðað við önnur sveitarfélög. Berglind bendir á að með fleiri slíkum rýmum myndi þjónustan batna.

mbl.is/Styrmir Kári

Þurfum að efla nágrannagæsluna 

„Við þurfum að efla nágrannagæsluna sérstaklega þegar það er ljóst að eldri borgurum heldur áfram að fjölga,“ segir Berglind. Hún segir margar leiðir færar til að auka hana og getur tæknin hjálpað talsvert í þeim efnum. Til að auðvelda heimaþjónustuna bæði fyrir hjúkrunarfræðinga, aðstandendur og skjólstæðinga verður tekið í notkun snjallsímaforrit á þessu ári þar sem aðstandendur geta meðal annars komið skilaboðum á framfæri til þess sem fer í vitjunina um að kanna til dæmis lyfjabirgðir og fleira í þeim dúr. 

Reykjavíkurborg skoðar einnig möguleika á að taka í notkun ákveðið snjallsímaforrit sem er notað í Finnlandi og nefnist Nifty Neighbour. Þar getur fólk skráð sig inn og tekið að sér ýmis verkefni og viðvik fyrir eldri borgara sem þurfa á þjónustu að halda sem gæti meðal annars falist í því að fara í búðina fyrir viðkomandi og fleira þess háttar. Enn sem komið er er ekki komið á áætlun fjármagn fyrir þetta verkefni. 

Berglind tekur fram að Reykjavíkurborg skoði þær upplýsingar vel sem komu fram í könnuninni. Hún bendir hins vegar á að staða eldri borgara á Íslandi sé heilt yfir mjög góð. Reykjavíkurborg stefnir á að vera aldursvæn borg. Meðal þess sem horft er til þegar talað er um aldursvænar borgir er húsnæðismál, samgöngur,  aðgengi, heilsugæsla, félagsleg þátttaka, upplýsingaflæði, samfélagsleg þátttaka og atvinna fyrir eldri borgar. í þessu verkefni hefur m.a. bekkjum verið fjölgað og íþróttamannvirki hafa verið opnuð á daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert