Tengir líkama og sál

Kundalini jóga. Salvör Nordal er ekki aðeins forstöðumaður Siðfræðistofnunar og …
Kundalini jóga. Salvör Nordal er ekki aðeins forstöðumaður Siðfræðistofnunar og lektor í heimspeki við Háskóla Íslands heldur kennir einnig jóga. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar og lektor í heimspeki, lætur ekki þar við sitja heldur stjórnar einnig jógatímum árla dags í íþróttahúsi Háskóla Íslands. Hún kennir heimspeki og siðfræði og segir jógað falla vel að fræðunum og öfugt.

Að loknu alþjóðlegu námi í Kundalini jóga, sem haldið var í Jógasetrinu veturinn 2008-2009, fékk Salvör réttindi til þess að kenna Kundalini jóga, en áður hafði hún stundað þar Kundalini jóga hjá Auði Bjarnadóttur í nokkur ár. „Ég fór í kennaranámið fyrst og fremst fyrir sjálfa mig, því mér fannst það gera mér gott að vera í jóga og Kundalini jóga átti sérstaklega vel við mig,“ segir hún.

Eftir að Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sem var starfsmannastjóri Háskóla Íslands um árabil, hafði lokið sama námi ákváðu þær að bjóða upp á jógatíma á morgnana í íþróttahúsi HÍ haustið 2015. Morgnarnir hafi orðið fyrir valinu því húsið er þétt setið yfir daginn. Salvör segir að vegna annarra verkefna hafi hún ekki getað bundið sig við jógakennslu fyrr en hún fékk samstarfskonu. Þær skiptist á að kenna. „Við byrjuðum einu sinni í viku og höfum smám saman bætt við tímum, erum nú með þrjá tíma vikulega,“ segir hún. Kennarar og annað starfsfólk hefur verið í meirihluta í tímunum en Salvör segir að stærri hópur nemenda hafi sýnt jóganu áhuga og því voni þær að fljótlega verði einnig hægt að bjóða upp á tíma síðdegis til þess að mæta óskum stúdentanna.

Góð heilsurækt

Auk góðrar hreyfingar og líkamlega styrkjandi æfinga segir Salvör að töluverð áhersla sé á hugleiðslu og slökun í jóga. „Þessir tímar eru styrkjandi fyrir alla og ekki síst unga fólkið.“ Hún segist sjálf alltaf hafa stundað mikla hreyfingu og langt sé síðan hún hafi farið í sinn fyrsta jógatíma. „Þá fann ég að jóga er mjög góð heilsurækt, en það sem laðaði mig sérstaklega að Kundalini jóga er áherslan á hugleiðslu. Andlegi þátturinn er mjög mikilvægur og styrkjandi í jóganu og það eykur einbeitingu og styrkir mig andlega. Jógað slær á eirðarleysi og þegar maður finnur góð áhrif sækir maður í að halda áfram.“

Salvör segir að tengingar í jógafræðunum við heimspekilegar spurningar séu áhugaverðar og í heimspeki megi greina vaxandi áhuga á hugmyndum, sem tengjast jóga. Hjá Forn-Grikkjum hafi heimspekiskólar enda verið með líkamsrækt sem hafi tengt saman heilbrigða sál og hraustan líkama. „Þessar tengingar eru spennandi og til dæmis eru margir snertifletir milli jógaheimspekinnar og stóuspekinnar sem hefur alltaf talað sérstaklega til mín,“ segir hún. „Við erum bæði andlegar verur og líkamlegar og það er gott að minna sig á það í þessum jógatímum því umfram allt þjálfar jóga tengingu milli líkama og sálar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert