Gott er að borða gulrótina

mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Samkvæmt evrópsku heilsufarsrannsókninni frá 2015 borðar einn af hverjum tíu íbúa á Íslandi fimm eða fleiri skammta af grænmeti og ávöxtum á dag, sem er tólfta lægsta hlutfallið í Evrópu. Konur eru líklegri til að vera í þessum hópi en karlar en neysla ávaxta og grænmetis er einnig tengd menntun, aldri og búsetu. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Ávextir og grænmeti eru fyrirtaksfæða.
Ávextir og grænmeti eru fyrirtaksfæða. AFP

Á Íslandi borðar rúmur þriðjungur landsmanna (35%) undir einum skammti af grænmeti og ávöxtum á dag sem er svipað og að meðaltali í Evrópusambandinu (34%). Hæst er þetta hlutfall í Rúmeníu (65%) en lægst í Belgíu (16%).

Hlutfall þeirra sem borða 1-4 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag er 55%, sem einnig er svipað og gerist að meðaltali í Evrópu (51%). Hæst er þetta hlutfall í Belgíu (71%) en lægst í Hollandi (29%).


Ef kastljósinu er beint að þeim sem mest borða af grænmeti og ávöxtum, sem samsvarar fimm skömmtum eða fleiri á dag, er það hlutfall 10% á Íslandi en 14% í Evrópu. Hæst er þetta hlutfall í Bretlandi (33%) og næsthæst á Írlandi (29%) en lægst í Tyrklandi (3%).

Á Íslandi líkt og almennt í Evrópu borða konur meira af grænmeti og ávöxtum en karlar, en 14% kvenna á Íslandi borða fimm eða fleiri skammta á dag á móti 6% karla. Hlutfall þeirra sem borða undir einum skammti af grænmeti og ávöxtum á dag er 40% meðal fólks með grunnmenntun en 28% meðal fólks með háskólamenntun. Þá er neysla ávaxta og grænmetis algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en utan þess, til dæmis borða um 32% íbúa höfuðborgarsvæðisins minna en einn skammt af grænmeti og ávöxtum á dag en 40% íbúa í dreifbýli.

Tekjur hafa minni áhrif en víða annars staðar

Í mörgum Evrópulöndum er að finna nokkuð sterkt samband á milli tekna og ávaxta- og grænmetisneyslu. Í Bretlandi til að mynda reynast um 39% svarenda í hæsta tekjufimmtungi borða ávexti og grænmeti fimm sinnum eða oftar á dag en 25% í lægsta tekjufimmtungi. Á Íslandi er lítil tenging við tekjur ef horft er til fólks sem hvað mest borðar af grænmeti og ávöxtum. Í lægsta tekjufimmtungi borða 9% einstaklinga fimm skammta eða fleiri á dag en um 11% fólks í tveimur hæstu tekjufimmtungunum. Meiri munur er á hlutfalli fólks sem borðar undir einum skammti á dag eftir tekjum, en það á við um 40% fólks í lægsta tekjufimmtungi en um 33% fólks í tveimur hæstu tekjufimmtungunum.

Litskrúðugt grænmeti er ríkt af andoxunarefnum.
Litskrúðugt grænmeti er ríkt af andoxunarefnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert