Það er mögnuð upplifun að ganga um sali Víðgelmis, stærsta hellis á Íslandi. Fyrir ári var hann opnaður að nýju fyrir gestum og nú er búið að smíða gólf í hellinum sem verndar hann fyrir skemmdum vegna umgengni fólks.
mbl.is slóst í för með hellaskoðunarfyrirtækinu The Cave niður í hellinn en Víðgelmir, sem er í Hallmundarhrauni skammt frá Fljótstungu á Vesturlandi, er í einkaeigu.
Íshraukar sem myndast á gólfi hellisins þegar vatn lekur úr lofti hans og frýs á gólfinu eru mun minni í ár en yfirleitt eftir hlýjan og mildan vetur. Í ferðinni var gengið 600 metra inn í hellinn sem alls er um 1.585 metra langur og 148.000 rúmmetrar. Þar endar gólfið og þá eru gestir komnir á 39 metra dýpi. Auk þess sem búið er að smíða pallinn er búið að setja upp ljós sem lýsa upp veggi hellisins.
Á tíunda áratugnum fundust mannvistarleifar frá víkingaöld sem eru varðveittar á Þjóðminjasafninu en hellirinn var lengi vel lokaður af með rammgerðu járnhliði til að vernda mögulegar minjar sem þar kynnu að leynast ásamt fallegum hraunmyndunum.
Hjónin Stefán Stefánsson og Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir keyptu Fljótstungu árið 2015 en Hörður Míó Ólafsson sonur þeirra sér um starfsemina.