Eitt af hjörtum hverfisins

Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Sr. Skúli Sigurður Ólafsson sóknarprestur.
Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Sr. Skúli Sigurður Ólafsson sóknarprestur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sextíu ára vígsluafmæli Neskirkju er fagnað með veglegum hætti í ár. Neskirkja stendur við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur og var vígð á pálmasunnudag 1957. En sóknin varð til árið 1940 þegar Reykjavík var skipt upp í fjórar sóknir; Dómkirkju-, Hallgríms-, Laugarnes- og Nessókn. Guðjón Samúelsson húsameistari var fenginn til að teikna Hallgrímskirkju og Lauganeskirkju en í Vesturbænum var ákveðið að fara aðrar leiðir og efna til samkeppni um hönnun kirkjunnar. Tillaga Ágústs Pálssonar arkitekts var valin úr og kynnt almenningi árið 1943. Þá varð uppi fótur og fit en útlit kirkjunnar þótti óhefðbundið og ýmsir sem fundu því allt til foráttu, m.a. sagði Jónas frá Hriflu teikningarnar sýna þyrpingu af kofaræksnum og tóku margir undir þau orð.

Leituðu álits erlendis

Sr. Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, hefur gaman af því að segja blaðamanni þessa sögu. „Alexander Jóhannesson, háskólarektor og formaður byggingarnefndar, tók þessa neikvæðu umræðu svo nærri sér að ákveðið var að senda teikningarnar til útlanda til hins þekkta finnska arkitekts, Elíel Saarinen, og óska eftir áliti hans. Saarinen fannst teikningarnar frábærar og þegar sú upphefð kom að utan sljákkaði í neikvæðninni,“ segir Skúli. „Neskirkja var fyrsta kirkjan á Íslandi teiknuð út frá hugmyndum módernismans. Hún var ekki með hefðbundnu kirkjusniði, langskips, forkirkju og turns. Ágúst hannaði kirkju sem er hugsuð fyrir mikið safnaðarstarf, með kjallara undir öllu og hliðarskipi fyrir ýmiskonar starfsemi.“

Árið 1947 er farið af stað með bygginguna og tíu árum síðar er kirkjan vígð. Skúli segir að það hafi tekið fólk langan tíma að venjast kirkjusniðinu. „Það sem mér finnst skemmtilegt er að það sem var á sínum tíma framúrstefnulegt og byltingakennt er í dag friðað samkvæmt lögum,“ segir Skúli en ytra útlit Neskirkju var friðað árið 1990. „Þessi kirkja stendur fyrir tímamót í kirkjubyggingum og verður að einhverju leyti fyrirmynd þeirra kirkna sem seinna rísa og hafa annað snið en þessar klassísku.“

Mikið leitað til kirkjunnar

Neskirkja var teiknuð með það í huga að vera bygging fyrir fólkið og í dag er lögð áhersla á að kirkjan sé opin öllum, enda er starfið í Neskirkju einstaklega líflegt. „Forverar okkar voru starfsmenn í opinberri stofnun sem fengu fólkið til sín en núna hafa forsendurnar breyst og við þurfum að gera ýmislegt til að laða fólk til okkar, við erum komin í svo mikla samkeppni,“ segir Skúli.

Útlit Neskirkju var mjgö umdeilt á sínum tíma, en hún …
Útlit Neskirkju var mjgö umdeilt á sínum tíma, en hún er fyrsta kirkjan á Íslandi sem var teiknuð út frá hugmyndum módernismans.

Fólk leitar eigi að síður mjög mikið til kirkjunnar að sögn sr. Steinunnar Arnþrúðar Björnsdóttur, prests í Neskirkju, sem er nú komin inn í viðtalið. „Þessi kirkja á sinn sess í hverfinu en þegar safnaðarheimilið var tekið í notkun 2004 varð gríðarleg breyting á öllum möguleikum og það er mikið um að vera hérna í allskonar starfi,“ segir Steinunn.

Skúli segir jákvætt fyrir kirkjuna að vera í meiri samkeppni um fólkið, það sé hvetjandi að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Steinunn segir að það verði m.a. til þess að ákvörðun fólks um að nýta sér þjónustu kirkjunnar verði oft ígrundaðri en verið hafi í gegnum tíðina.

Spurð hvernig þau sjái fyrir sér framtíð kirkjunnar svarar Steinunn að draumurinn sé að efla tengslin áfram við nærsamfélagið og fá að vera þátttakandi í samfélaginu sem ein af þeim samtökum á svæðinu sem eru opin fyrir fólk. „Við viljum vera eitt af hjörtunum sem slá í þessu hverfi,“ segir Skúli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert